Örvitinn

Menningarnóttin okkar

Við skelltum okkur í miðbæinn í dag - vorum samt ekki með nein dólgslæti!

Kolla og Inga María sitja fyrir framan Gunna og FelixKomum í bæinn rétt rúmlega eitt, lögðum bílnum við Eiríksgötu (fyrir neðan Hallgrímskirkju) og röltum í bæinn. Göngutúrinn byrjaði reyndar illa því Inga María rak hausinn í og fékk væna kúlu - hún er hrakfallabálkur.

Byrjuðum í Landsbanka Austurstræti þar sem Gunni og Felix skemmtu. Vorum mætt þokkalega snemma og stelpurnar gátu því komið sér fyrir fremst. Landsbankinn fær plús fyrir að hafa dýnur fremst fyrir börnin, krakkarnir sáu öll vel. Kolla og Inga María skemmtu sér vel og fannst mikið ævintýri að sitja fremst hjá Gunna og Felix áður en sýningin hófst. Gunni og Felix kunna þetta, krakkarnir hafa óskaplega gaman að þeim og foreldrarnir geta hlegið með - þeir syngja reyndar sömu lögin ár eftir ár en stelpurnar kvarta ekki.

Eftir atriðið hjá Gunna og Felix kíktum við á Austurstræti og settumst á grasið. Óskaplega var það samt óþrifalegt, sígarettustubbar úti um allt tún - þarna mætti þrífa betur.

Abbababb á fullu - Biggi á trommumVið kíktum aftur í Landsbankann klukkan þrjú til að sjá lög úr Abbababb. Þekkjum lögin vel enda var diskurinn töluvert spilaður í bíltúrum í Frakklandi. Aftur sátu stelpurnar framarlega en við foreldrarnir hliðar.

Sverrir sýnir fólki sólinaAð Abbababb loknu sáum við dansatriði á Ingólfstorgi. Þaðan röltum við á Austurvöll og kíktum á sólina hjá Sverrir stjörnuskoðara.

Hittum foreldra mína, Jakobínu og Auði fyrir framan Hressó, spjölluðum við þau áður en við héldum á Lækjartorg þar sem stelpurnar fengu sér pylsur. Klukkan fimm héldum við svo enn og aftur í aðalútibú Landsbankans, í þetta skipti til að Ragnheiði Gröndal og Hauk Gröndal.

Stelpurnar kíktu á línudans á Ingólfstorgi en ég tyllti mér á bekk og hvíldi mig. Við röltum þvínæst í Ráðhúsið þar sem salerni voru nýtt og Gyða fékk kaffi.

Þórður JörundssonRöltum í Hljómskálagarðinn og sáum Þórð spila með hljómsveit sinni, Retro Stefson. Það var fámennt (en góðmennt) í Hljómskálagarðinum en Retro Stefson voru stórskemmtileg. Ég hlakka til að heyra meira í þeim.

Héldum aftur að Lækjartorgi og fórum að reyna að fá borð á veitingastað. Fengum ekki inni á La Primavera, Galileó eða Tapas barnum, gátum fengið að bíða á Tapas barnum en nenntum ekki að bíða í klukkutíma. Enduðum á Horninu þar sem við biðum fyrir utan í korter eftir borði. Fengum okkur pizzur og hálfmána sem komu ónýt á borðið - greinilega gleymst í ofninum í því pizzurnar voru vel brunnar, endar grjótharðir og ostur brúnn. Létum okkur hafa það en hefðum í raun átt að senda matinn til baka í eldhúsið.

Flugeldar á menningarnóttEftir mat héldum við upp Skólavörðustíg að bílnum okkar. Ókum að Sæbrautinni gegnt Nýherja og horfðum á flugeldasýninguna. Gæslumenn geng á línuna og bönnuðu fólki að sitja á varnargarðinum. Það gekk ekkert rosalega vel hjá þeim.

Ég stillti myndavélinni á þrífót og smellti af ótal myndum með gikksnúru - náði nokkrum þokkalegum flugeldamyndum. Dundaði mér svo við að taka sólarlagsmynd á löngum tíma eftir að flugeldasýningu lauk.

Heimferðin gekk vel - Inga María sofnaði í bílnum en vaknaði á áfangastað og rölti sjálf upp í rúm.

Myndir dagsins

dagbók menning
Athugasemdir

Gummi Jóh - 19/08/07 22:25 #

Ég hef sagt það áður og ætla að segja það aftur að Retro Stefson er einhver mest spennandi hljómsveit Íslands í augnablikinu. Hlakka mikið til að heyra plötu með þessum krökkum.

Hjaltalín og Retro Stefson eru einu íslensku sveitirnar sem ég get ekki beðið eftir að heyra meira efni með.