Örvitinn

Málflutningur presta - veraldlega gifting á vegum Siðmenntar

Stundum* botna ég ekkert í málflutningi presta. Þessi bloggfærsla Guðmundar Arnar Jónssonar klerks í Vestmannaeyjum er dæmi um þankagang sem ég fatta ekki.

Siðmennt mun semsagt framkvæma veraldlega giftingu í fyrsta skipti á morgun og fer athöfnin fram í Fríkirkjunni í Reykjavík.

Guðmundur Örn botnar ekkert í þessu og skrifar meðal annars:

Þessi athöfn er auðvitað ekki kirkjuleg og hún er heldur ekki borgaraleg. Ónei, hún er veraldleg!! Það er einhvernvegin allt svona hálfkjánalegt við þetta mál, svo ekki sé tekið dýpra í árinni. Af hverju vill fólk sem ekki trúir á tilvist Guðs fá að hafa athöfn í Guðshúsi? Er ekki til fullt af fínu húsnæði í borginni? Fríkirkjan er lánuð til þess að þar geti farið fram athöfn sem hefur ekki nokkurn skapaðan hlut með Guð að gera og þeir sem fá hana eru siðmenntarmenn sem hafa nú ekki beint vandað þessum "trúarnötturum" kveðjurnar. Hvar ættu mörkin að liggja varðandi notkun á Guðshúsi? Er það við aðra trúarhópa? Trúleysingja? Eða eiga kannski engin mörk að vera? Er þá ekki alveg hægt að lán kirkjurnar til djöfladýrkenda? #

Siðmennt í kirkju, hvað næst? Djöfladýrkendur? Nei, svona skrif eru náttúrulega alveg út í hött. Prestar eru sífellt að stæra sig af góðri mætingu í kirkjur - stór hluti af þeirri mætingu kemur kristinni trú ekkert við - t.d. mæting á ýmsa tónleika og svo þegar leik- og grunnskólabörn eru dregin í gvuðshús. En þarna finnst prestinum of langt gengið - að gvuðleysingjar fari að gifta fólk á veraldlegum forsendum - þá hneykslast karlinn.

Heldur hann virkilega að það verði eitthvað gvuðlast í þessari athöfn?

Ég fagna þessu framtakið Siðmenntar og einnig því að í framtíðinni munu þau bjóða upp á fleiri veraldlegar athafnir, þar með talið útfarir.

Ég botna reyndar ennþá minna í þessari gagnrýni.

Ég spái því að Krulli kverúlant eigi eftir að segja eitthvað heimskulegt um þetta mál.

*Ok, nær alltaf.

kristni
Athugasemdir

Eva - 21/09/07 17:08 #

Skattgreiðendur halda kirkjunni uppi og eiga því sama rétt og sannkristnir á því að nýta þetta húsnæði. Það er dýrt að leigja sal.

Ég veit ekki betur en að "kirkjulegar" athafnir á trúarlegum forsendum, með presti og öllum pakkanum séu iðulega haldnar annarsstaðar en í kirkjum, þannig að ég hélt nú að staðsetningin hefði lítið trúarlegt gildi. Ýmsisskonar starf sem ekki er á vegum kirkjunnar fer aukinheldur fram í kirkjum og kapellum svo ekki skil ég þetta væl.

Matti - 22/09/07 11:16 #

Þetta er bara skítkast hjá Guðmundi - honum er illa við Siðmennt og Hjört í Fríkirkjunni og þarna fær hann tækifæri til að drulla yfir alla.

Matti - 24/09/07 00:55 #

Ég reyndist sannspár

Krulli kverúlant tjáir sig enn og aftur um eitthvað án þess að gera minnstu tilraun til þess að kynna sér málið.