Örvitinn

Stóðréttir í Víðidalstungurétt

Örstutt ferðasaga.

Stóð á stökki

Ég og Davíð skelltum okkur úr bænum á fimmtudag um fimm. Versluðum vín í Mosfellsbæ, komum við í bústað til að sækja regnjakkann minn og mættum á Hvammstanga rétt fyrir hálf átta.

Oddný eldaði pizzur og við áttum ágæta stund með fjölskyldunni og kettlingum áður en við þrír, ég, Davíð og Eiki héldum að Neðra Vatnshorni.

Kjartan, Stefán, Gummi og Jónas voru mættir þangað. Við drukkum nokkra öl og spjölluðum um daginn og veginn áður en haldið var til hátta.

Fórum á fætur rétt fyrir níu á föstudag. Klæddum okkur vel enda spáin ekki góð og fórum út um tíu. Sóttum hross og riðum svo meðfram og fram og til baka yfir Víðidalsá, fórum upp á heiði þar sem við fengum ungverska gúllassúpu og héldum svo veginn til baka. Við vorum síðastir af heiðinni enda völdum við óheppilega leið upp úr gilinu og vorum því komnir frekar seint uppeftir. Riðum eftir stóðinu niður af heiðinni, stoppuðum í Kolugili og fengum kakó og með því. Lokaáfangi var svo í Víðdalstungu þar sem við vorum um sjö um kvöldið.

Veðrið var þokkalegt, það rigndi örlítið en ekkert til að væla undan - þokkalega hlýtt og skyggni ágætt allan daginn. Ölvun var ekki jafn áberandi og í fyrra - þó vissulega væru nokkrir ansi skrautlegir. Ekki þurfti að panta þyrlu til að sækja slasaða þetta árið.

Héldum aftur í Neðra Vatnshorn, skiptum um föt og helltum í okkur áfengi - sumir lögðu sig aðeins. Þarna var stemmingin afskaplega góð. Héldum út í sveit til að fá kjötsúpu sem við fengum ekki. Komum við á tveim bæjum og enduðum í Kolugili þar sem í gangi var "ball", þar var skrafað og drukkið. Héldum aftur heim um eitt minnir mig - fengum pulsur fyrir háttinn.

Vöknuðum um tíu á laugardagsmorgni og sáum að úti var allt hvítt og komin hríð. Ég og Davíð lögðum af stað heim um hádegisbil - komum við í Kolugili til að sækja húfur og vettlinga úr bílnum hans Eika. Stoppuðum í Staðaskála á heimleiðinni og fengum óskaplega vonda hamborgara. Ókum hægt yfir Holtavörðuheiðina, a.m.k. niður heiðina því þar var fljúgandi hálka. Ég hlustaði á afskaplega áhugaverðan útvarpsþátt um "herskáa trúleysingja" en Davíð svaf blessaður.

Við slepptum semsagt Stóðréttunum sjálfum og laugardag og stóðréttaballinu, en eftir ferðina í fyrra er ég nú á því að útreiðin á föstudag er það allra skemmtilegasta af þessum pakka. Verst var að missa af kvöldverðinum hans Ingvars á laugardag.

Mættum í bæinn rétt fyrir þrjú.

Ég var afskaplega styrður í öxlum og baki eftir hestbakið. þetta var samt stórskemmtilegt og ég mæti bókað að ári. Vil bara fá örlítið viljugra hross næst :-)

Myndirnar.

dagbók