Örvitinn

REI og ég

Á Hveravöllum
Hér er jarðvarmi, má ekki selja hann?
Ég myndi gjarnan vilja fá að kaupa hlut í Reykjavík Energy Invest á sömu kjörum og Bjarni Ármannsson. Ég hef ekki efni á að kaupa alveg jafn mikið magn og Bjarni en gæti sett einhvern smá aur í þetta ævintýri.

Ef mér stendur það ekki til boða þætti mér vænt um að þeir sem hafa þann starfa að gæta hagsmuna minna í Reykjavík, þar sem ég bý og borga útsvar, gefi ekki einhverjum öðrum þessi verðmæti sem í fyrirtækinu felast. Frekar vildi ég græða á þessu sem borgarbúi ef ég má ekki græða sem lítill fjárfestir.

Mér finnst ekki ástæða til að selja ef það lítur út fyrir að verðmæti aukist mikið í náinni framtíð. Frjálshyggjan þvælist ekkert fyrir mér í þessu máli, borgin má alveg eiga hluta í þessu og græða svo lengi sem borgarbúar njóta þess að lokum og einkavinir fá ekki stórfé gefins.

Af hverju þurfa íslenskir milljarðamæringar meira? Ég get svo svarið að ég væri hættur ef ég ætti milljarð, fjandakornið, það væru a.m.k. 10 milljónir á mánuði skattfrjálst ef maður legði slíka upphæð inn á bankareikning!

Annars er Úrvalsvísitalan á uppleið og ég á næstum jafn mikið í hlutabréfum og í júlí þegar allt fór niður.

pólitík
Athugasemdir

Eyja - 09/10/07 22:48 #

Svarið við spurningu þinni er eitt sex stafa orð: græðgi. Á meðan fólk sem er of gráðugt í mat er fyrirlitið og kallað offitusjúklingar og fólk sem er gráðugt í áfengi og dóp sent í meðferð þá er fólki sem er gráðugt í peninga einhverra hluta vegna hampað sem hetjum.

gimbi - 10/10/07 02:06 #

Sæll Matti, ég er gimbi. Ég heiti Jóhann Sigurfinnur Bogason, er 49 ára gamall, með menntun í heimspeki, fjögurra barna faðir, þar af pabbi sonar Bergs Þórissonar.

Ef þú vilt vita meira um mig, þá gætir þú leitað til Bergs, en ég ráðlegg þér að vera ekki með neinar getgátur uppi. Vertu bara kaldur.

Þú hefur nú eytt mörgum athugasemdum frá mér, og ég er sannarlega furðu lostinn.

Ég veit sem er að að ég er ekki jábróðir þinn. Svo verður að vera.

En ekki halda að ég sé einhver fáviti...

Kristín - 10/10/07 06:30 #

Ég vildi bara taka undir með Eyju.

Matti - 10/10/07 11:10 #

Þannig að í raun erum við að tala um fíkn. Það rímar svosem ágætlega við þau viðtöl sem ég hef lesið við íslenska auðkýfinga. Þeir tala óskaplega mikið um spennuna við að loka samningum og eitthvað þessháttar.

Einar Örn - 10/10/07 13:52 #

"Af hverju þurfa íslenskir milljarðamæringar meira?"

Ég held að þetta snúist að mörgu leyti um metnað. Sama og með íþróttamenn, þeir eiga allir nóg en ef þeir sjá að einhver fær hærri laun, þá vilja þeir fá hærri laun en hann.

Svo held ég líka að menn hafi líka bara einstaklega gaman af því að græða peninga, ótengt því hvað þeir gera svo við þá. Ég þekki það úr eigin fyrirtækjarekstri að mér finnst oft skemmtilegra að sjá mikinn pening inná fyrirtækjareikningnum heldur en hjá sjálfum mér.

Eyja - 10/10/07 14:24 #

Næsta skref er svo að einhver taki sig til og fari að bjóða upp á meðferð fyrir fjárfíkla. Það ætti að vera hægt að rukka góðan slatta fyrir....