Örvitinn

Ökuníðingur og glæpamaður


Spurning um að taka vegamyndir
Þegar ég kom heim úr vinnu í nótt beið mín bréf á kommóðunni á ganginum. Þó klukkan væri tvö og ég fjandi syfjaður opnaði ég bréfið og sá að þetta var TILKYNNING FRÁ Lögreglustjóranum á Snæfellsnesi.

Lögreglustjórinn tilkynnir mér að ég hafi framið umferðarlagabrot og ekið eins og brjálæðingur, ég verðskuldi refsingu og skuli borga sekt í ríkissjóð. Sjálfvirk myndavél lögreglunnar (robocop) hafi staðið mig að verki.

Hver var glæpur minn, hvað gerði ég svona hroðalegt?

Á fimmtudag kl. 17:30 ók ég eftir þjóðvegi 1 á Vesturlandsvegi, Hagamel, við 301 í Hvalfjarðasveit og var yfir hraðamörkum. Ég virti ekki lög um hámarkshraða heldur svívirti þau, ég níddist á þeim og niðurlægði löggjafann. Nú skal ég gjöra svo vel að borga keisaranum það sem honum ber.

Hver var hraðinn?

Hraðinn hræðilegi var 97 km á klst.

Ég þarf að greiða sekt í ríkissjóð fyrir að aka á níutíu og sjö kílómetra hraða á þjóðvegi nr. 1 við fínar aðstæður.

Það sem meira er, ég játa brotið. Ég ók ekki bara á 97, ég ók á 98 km/klst. Hvernig veit ég það? Jú, þegar ég kom úr göngunum setti ég bílinn á cruise control og mældi svo hraðann með gps bíltæki. Davíð ferðafélagi minn getur vitnað til um þetta.

Ég var mældur á 101 og vikmörk eru 4. Ég ók ekki á 101, ekki nema mælirinn sé við brekku og sjálfstýringin hafi farið örlítið yfir - en þegar ég ek á þjóðveginum fer ég alltaf rétt undir 100 og held mig þar með hjálp sjálfstýringar.

Ég er ekki með einn einasta punkt í ökuskrá, ég hef aldrei verið tekinn fyrir of hraðan akstur. Ég fer nær aldrei yfir 100 á þjóðveginum í dag þökk sé sjálfstýringu.

Djöfuls ökuníðingur er ég. Ég á skilið að missa tíu þúsund krónur (7.500 ef ég borga fyrir 20.okt), ég hefði bara notað þær í einhverja vitleysu en í staðin getur ríkissjóður notað þær til að fjármagna fleiri hraðamyndavélar sem ná glæpamönnum sem bruna um þjóðveginn á 97.

kvabb
Athugasemdir

Sirrý - 10/10/07 11:57 #

Já maður verður að passa sig að keyra ekki svona eins og vitleysingur :C). Cruisið skal stillt á 94 skilst þeir byrji að sekta við 95 núna. argg.

Mummi - 10/10/07 12:38 #

Já, það er gott að þeir ákváðu að lækka leyfileg hraðamörk þarna um daginn. Hugsaðu þér alla hina skelfilegu glæpamenn sem svívirt hafa lög landsins og allsherjareglu sem hafa hingað til ekið óáreittir á allt að 98 km/klst hraða!. Þökk sé góðhjörtuðum og fórnfúsum löggæsluvitringum eru þessir glæpahundar nú sektaðir ef þeir dirfast upp fyrir 95 km/klst. Þetta ætti að stórfækka glæpahyskinu og draga stórlega úr meðal- til stóralvarlegum slysum.

Ég vona að þú skammist þín og sjáir að þér.

Driver - 10/10/07 12:59 #

Myndavélarnar eru einkaframtak Umferðarstofu og Vegagerðarinnar. Reglugerðin um lækkun vikmarka kom frá Umferðarstofu og var eitt af síðustu verkum Sturlu Alþingisforseta sem Samgönguráðherra. Verkefnið með myndavélarnar fóru til Stykkishólm heimabæ Sturlu. Vegagerðin sjálf vildi helst sjá um slíkt kerfi og sjá um sektirnar, eins og eru í Noregi en fengu ekki. Vegagerðin rekur myndavélarnar og sendir svo myndirnar til lögreglu til loka úrvinnslu. Allir ökuníðingar vita af myndavélunum og bremsa harkalega rétt áður. Fórnarlömbin eru ökumenn sem aka án brotavilja og erlendir ferðamenn. Bæði drukknir, vímaðir og hraðaksturfíklar fagna gríðarlega ef settar verða aðeins upp myndavélar og lögreglan getur dregið sig í hlé vegna manneklu.

Gunnar J Briem - 10/10/07 17:54 #

Ég þekki einn álíka löghlýðinn stórglæpamann sem var tekinn á 96 km/klst á tvöfaldri Reykjanesbraut á milli Hafnarfjarðar og Reykjanesbæjar.

Hvernig er það, er sama sekt fyrir að fara á 36 km/klst þar sem hámarkshraði er 30 km/klst?

Mér þykir það umtalsvert alvarlegri glæpur að fara 20% fram úr hámarkshraða en 7%.

Eva - 11/10/07 11:08 #

Guðmundur Ólafsson tók einmitt þessa undarlegu stefnu fyrir í þætti sínum og Sigurðar G. Tómassonar á útvarpi Sögu fyrir nokkrum vikum. Hann lenti í nákvæmlega því sama og þú. Hans álit, og ég get ekki annað en tekið undir það með honum, er að það sé ósanngjarnt að sekta fólk fyrir brot sem hingað til hefur ekki verið tekið á sem brotum, án þess að nokkur umræða eða aðvaranir hafi farið fram í fjölmiðlum áður. Hingað til hefur það verið almennur skilningur að viðmiðunarmörkin séu 100 km, hvað sem öllum lögum líður.

Matti - 11/10/07 13:16 #

Mér finnst þetta bara svo djöfulli skítt. Mér finnst að mér vegið, mér finnst yfirvöld vera að koma aftan að mér fyrir engar sakir. Mig svíður undan þessu.

Mér finnst þetta eigilega fasískt. Stefnan virðist vera sú að refsa heiðarlegu fólki fyrir litlar eða engar sakir.

Ég sé sömu tilburði varðandi "vandamálið í miðborginni".

Sindri - 19/10/07 20:37 #

"Ég sé sömu tilburði varðandi "vandamálið í miðborginni"."

Ég segi það sama. Ég hræðist mjög þá stefnu sem virðist eiga að taka með pissulöggunni.

Einhvern tímann var sagt að lýðræðið sé afnumið með lófataki, enda hafa margir fagnað opinberlega þessu "góða framtaki" hegðunarlögreglunnar.