Örvitinn

Afsökunarbeiðni

Stundum snúast hlutirnir í höndunum á mér. Fyrir nokkrum dögum fékk ég hugmynd sem mér þótti skondin.

Moggabloggari nokkur tók upp á því að rægja mig og nafngreindan einstakling í kjölfar þess að ég skrifaði athugasemd á síðu hans. Af einhverjum undarlegum ástæðum sá hann ástæðu til þess að draga einstakling inn í umræðuna sem ekkert hafði tjáð sig á hans síðu og tengdist athugasemd minni ekki á nokkurn hátt. Eina tenging hans við málið er að sá einstaklingur er í félagsskap sem ég er í forsvari fyrir.

Mér datt því í hug að skondið væri að skrifa lygasögu um þann sama bloggara en taka jafnframt fram að sagan væri uppspuni frá rótum. Í morgun hrærði ég svo saman stutta þvælu og setti á netið.

Eins og við var að búast frá Stefáni Einari hafði hann ekki samband við mig heldur fór með málið beint í lögfræðing. Mér var bæði ljúft og skylt að fjarlægja færsluna og hefði gert það strax ef Stefán Einar hefði sjálfur beðið um það.

Ég bið Stefán Einar innilega afsökunar á því ef þessi skáldsaga hefur meitt æru hans. Reyndar sé ég ekki hvernig það hefði átt að virka, það var jú vandlega tekið fram að færslan væri lygi og engin tilraun var gerð til þess að telja nokkrum lesanda trú um að sagan væri sönn, eða eins og sagði í smáa letrinu:

Smá letrið Að sjálfsögðu er ekkert af þessu satt. Þetta er skáldskapur frá upphafi til enda. Stefán Einar vílar ekki fyrir sér að skrifa ósannindi um nafngreint fólk á síðu sína og hefur enga slíka fyrirvara við sín skrif. Morgunblaðinu stendur líka á sama, þar á bæ þykir ekkert athugavert við að birta lygar um einstaklinga á vefsíðum þeirra. Ég persónulega er reglulega skammaður fyrir orðbragð - en eitt getur fólk ekki skammað mig fyrir. Ég legg það í vana minn að segja satt. Ef einhver leiðréttir mig eða krefst raka fer ég yfir málið - annað hvort sýni ég fram á að ég hef rétt fyrir mér eða leiðrétti skrif mín.

Eins og ég sagði, ég hélt þetta yrði sniðugt en svo var greinilega ekki. Mea culpa.

Athugasemdir

Eva - 06/11/07 15:32 #

Samkvæmt úrskurði siðanefndar Blaðamannafélagsins frá því í gær ætti þér að vera alveg óhætt að birta færsluna aftur, (án þess að taka fram að hún sé uppspuni) ef þú gætir þess bara að taka fram að þú hafir þetta eftir heimildum sem þú telur áreiðanlegar. Þú þarft ekki að gefa upp hver heimildamaðurinn er eða rökstyðja mál þitt á nokkurn hátt.