Örvitinn

Leiðréttið trúfélagaskráningu fyrir mánaðarmót

Ég minni á að þið hafið bara fimm daga til að leiðrétta trúfélagaskráningu fyrir næsta ár. Þann 1. des er ákveðið hvernig sóknargjöldum landsmanna er úthlutað næsta árið.

Ef þið eruð skráð í Ríkiskirkjuna þann 1. des hafið þið ákveðið að styrkja Karl Sigurbjörnsson og kó um rúmar tíu þúsund krónur. Það er ykkar réttur, ekki misskilja mig. Ef ykkur finnst það að samkynhneigðir fái að giftast jafngildi því að kasta hjónabandinu á sorphaugana, viljið auka trúboð í leik- og grunnskólum og styðjið biskup í að ala á fordómum gegn þeim sem ekki eru trúaðir svo einhver dæmi séu tekin, verið þá endilega skráð í Ríkiskirkjuna áfram.

En í gvuðanna bænum, ekki vera skráð í þann söfnuð ef þið eigið ekki samleið með þeim. Ef þið eruð frjálslynd og kristin mæli ég frekar með Fríkirkjunni. Ef þið eruð bókstafstrúuð eru ýmsir valmöguleikar. Þeir sem eru ekki trúaðir ættu að sjálfsögðu að skrá sig utan trúfélaga og styrkja Háskólann í stað Ríkiskirkjunnar. Varla þarf að ræða hvor aðilinn gerir meira gagn. Það er mýta að guðfræðideildin fái eitthvað af þeim aur, mýta sem ég held stundum að Ríkiskirkjan hljóti að breiða út, svo lífseig er hún.

Það er ekkert mál að breyta skráningu en með því sýnið þið afstöðu ykkar í verki. Þið mynduð ekki vilja vera skráð í stjórnmálaflokk sem ynni gegn ykkar hugsjónum. Ekki vera skráð í trúfélag útaf sinnuleysi, skráið ykkur úr Ríkiskirkjunni. Sækið eyðublaðið [pdf skjal] á heimasíðu Þjóðskrár, fyllið út og sendið í faxi [s. 569 2949] eða skutlið á skrifstofu Þjóðskrár í Borgartúni 24. Þetta geta allir gert sem eru orðnir sextán ára, foreldrar þurfa að breyta skráningu yngri barna [eyðublað fyrir börn yngri en 16 [pdf skjal]]. Sóknargjöld eru greidd fyrir alla þá sem eru sextán ára þann 1. des.

efahyggja pólitík
Athugasemdir

Gummi Jóh - 26/11/07 16:02 #

prentað,útfyllt og sent.

Og löngu kominn tími til.

Matti - 26/11/07 19:06 #

Frábært.

Einar - 27/11/07 23:31 #

Takk fyrir ábendinguna, málið afgreitt

Freyr - 29/11/07 09:58 #

Komin nokkur ár síðan ég skráði mig úr þjóðkirkjunni, en hef reglulega (annað hvert ár eða svo) tékkað á stöðunni til að vera viss um að ég og börnin mínum séum örugglega skráð utan trúarfélags. Sumir hafa lent í því að börnin þeirra hafa "óvart" verið skráð í þjóðkirkjuna.