Örvitinn

Eru englar til?

Það er sannarlega ekki komið að tómum kofanum þegar trú.is er annarsvegar. Þar eru fræðimenn til svara, tilbúnir að ausa úr viskubrunni sínum yfir almúga þessa lands.

Biskupinn "hatrammi", Karl Sigurbjörnsson svarar hér spurningu grunnskólabarna í 4. og 5. bekk, en þau vilja vita hvort englar séu til í alvörunni. Biskupinn yfir Íslandi svarar skilmerkilega enda lærður mjög eins og faðir hans sem sumir vilja meina að sé guðleg vera. Grunnskólabörn geta treyst því að biskupinn er ekki bara trúmaður heldur líka sprenglærður fræðimaður sem svarar skýrt og greinilega, hann stundar ekki grænsápuguðfræði.

Já, Guð getur sent engla sína til hjálpar mönnunum. Hann lætur verndarengla sína vaka yfir okkur á nótt sem degi. Það er mikilvægt að hryggja þá ekki né styggja. Englar Guðs eru yfirleitt ósýnilegir. # (feitletrun - Matti Á.)

Þar hafið þið það krakkar mínir. Englar eru til og yfirleitt ósýnilegir, en stundum ekki. Nú þurfið þið bara að vera dugleg að líta í kringum ykkur og hvert veit - kannski sjáið þið engla. Nú þurfum við bara að gefa þessu fólki meiri aðgang að leikskóla og grunnskólabörnum svo þau fari ekki á mis við fræðin góðu. Þannig björgum við æsku þessa lands og menntun þegnanna.

kristni
Athugasemdir

Gummi Jóh - 10/12/07 15:06 #

Svipað og með strumpana. Sögumaðurinn í Strumpunum sagði að ef maður væri þægur og góður sæi maður Strumpunum ef til vill bregða fyrir.

Ég hef reynt í rúmlega 20 ár að sjá strumpa og enn enga séð.

Kalli - 10/12/07 15:45 #

Með svona vitneskju á tæru er ekki skrítið að nafni vilji komast í skólana til að geta undirbúið börnin betur undir lífið.

Steindór J. Erlingsson - 10/12/07 20:54 #

Mér finnst þetta svar biskupsins í meira lagi vafasamt því burt séð frá spurningunni um hvort englar séu til eða ekki þá vekur þetta upp eftirfarandi spurningu: Hvað hafði vinkona 8 ára gamallar dóttur minnar, sem lést fyrr á þessu ári, gert guði sem réttlætti að hann fjarlægði "verndarengil" hennar? Hvað hafði 4 ára drengurinn, sem lést í Keflavík um þarsíðustu helgi, gert á hlut guðs sem réttlætti að "verndarengil" hans bjargaði honum ekki frá bílnum sem drap hann? Þetta er hið klassíska illskuvandamál: Hvernig getur algóður guð leyft slíka illsku? Þessu hefur theistum alltaf gengið illa að svara.

Í framhaldi af þessu langar mig að benda á væntanlega bók eftir hinn kunna bandaríska Biblíusérfræðing Bart D. Ehrman, þar sem hann fjallar um þetta vandamál. Bókin, sem kemur út í febrúar á næsta ári, nefnist "God's Problem: How the Bible Fails to Answer Our Most Important Question--Why We Suffer"

Heiða María Sigurðardóttir - 10/12/07 22:45 #

Hæ Matti. Ég veit að biskup hefur hagað sér einkar undarlega, svo ekki sé meira sagt, en ég er svolítið hrædd um að þú gætir fengið það í bakið ef þú ferð niður á hans plan og kallar hann hatramman. Bara svona pæling, þarft ekkert að taka hana til greina frekar en þú vilt.

Matti - 10/12/07 22:47 #

Mér fannst frekar augljóst að ég væri að gera grín að honum með þessum orðum - en það rataði greinilega ekki í gegn :-)

Steindór J. Erlingsson - 10/12/07 23:15 #

Matti, til þess að fyrirbyggja misskilning ættir þú að setja orðið hatrammur innan gæsalappa. Þá sést betur að þú ert að vísa í ummæli biskupsins sjálfs!

Kalli - 10/12/07 23:16 #

Steindór: minnir mig á reynslusögu pilts sem fannst „hvers vegna kemur þetta fyrir mig“ spurningin gríðarlega óþægileg þar til hann gekk af trúnni.

Matti - 10/12/07 23:22 #

Ég fór að ráðum Steindórs og skellti gæsalöppum utan um "hatrammi".

Eva - 11/12/07 16:41 #

Mig langar að vita hvernig biskup myndi svara barni sem spyrði hvort djöflar séu til í alvöru.

Matti - 11/12/07 16:44 #

Ég get nú alveg ímyndað mér svarið:

Já, djöflar eru til. Oftast eru þeir ósýnilegir en stundum manngerast þeir í formi hatrammra trúleysingja sem berjast gegn öllu því sem er gott og kærleiksríkt.

:-)