Örvitinn

Þingsköp - málþóf - filibuster

Í bók sinni The assault on Reason fjallar Al Gore meðal annars um atlögu ríkisstjórnar Bush að filibuster. Gore bendir á að í lýðræðisríki sé nauðsynlegt að minnihluti/stjórnarandstaða hafi einhver ráð til að hefta framgang þingsins - það sé nauðsynlegt að til sé tæki sem valdi því að meirihluti þurfi að taka tillit til minnihlutans.

Lýðræði gangi ekki bara út á einfaldan meirahluta í öllum málum, heldur að tekið sé tillit til sjónarmiða.

Í umræðu um frumvarp um breytingar á þingsköpum Alþingis hefur einungis verið talað um málþóf, hvað sumir þingmenn tali stundum lengi og hvað það sé leiðinlegt. Ekkert hefur verið minnst á að minnihlutinn þarf að hafa einhverja leið til að stöðva meirihlutann.

Getur einhver útskýrt fyrir mér muninn á því sem stjórn Bush gerði eða reyndi að gera varðandi filibuster og því sem Alþingi er að gera nú með breytingum á þingsköpum? Ég verð að játa að ég átta mig ekki á því.

pólitík
Athugasemdir

Stefán - 14/12/07 13:40 #

Mér finnst líka þessi fimmtán mínútna viðmiðun sérkennileg.

Kennslustundir í skólum eru yfirleitt um 40 mínútur. Sú tala er ekki fengin út í bláinn - heldur þykir það vera passlegur tími til að gera tilteknu efni skil án þess að ganga fram af nemandanum.

Fyrir tæpum áratug var reynt að stytta kennslustundirnar í Háskólanum - þær áttu að vera rétt um hálftími. Mönnum var sagt að þetta yrði ekkert mál, kennararnir myndu bara skipuleggja sig betur til að þjappa saman efninu. Frá þessu var horfið af því að reynslan var ekki góð.

Er svo fráleitt að telja að umfjöllun um málefni sem geta skipt talsverðu máli fyrir lífskjör fólks eigi að lúta svipuðum lögmálum og kennsla í skóla? Eða er úthald þingmanna bara þriðjungurinn af úthaldi skólabarna?

Erna - 14/12/07 14:49 #

Þetta er nákvæmlega sama fyrirbærið. Og þetta með að VG séu að tala of lengi er bara fyrirsláttur til þess að ná mikilvægu úrræði af andstöðunni. Það er nú ekkert svo langt síðan þetta var notað síðast. þetta virðist fáránlegt frumvarp.

Matti - 14/12/07 18:06 #

Það versta er að enginn þeirra sem tjá sig um málið í fjölmiðlum skoðar þennan flöt. Ekki einu sinni þeir sem mest ræða um pólitík hér á landi.