Örvitinn

Síðustu dagar

Ég verð að játa að ég er ekki beinlínis í bloggstuði vegna nýjustu atburða. Ætla að fara hratt yfir atburði síðustu daga.

Hér voru að sjálfsögðu jól! Vorum heima á aðfangadag, átum góðan mat og opnuðum fullt af fínum pökkum. Hér eru fáeinar myndir.

Á jóladagskvöld fórum við í boð hjá Þór og Huldu. Ég tók líka nokkrar myndir þar.

Annan í jólum skelltum við okkur í Ensku húsin í Borgarfirði þar sem föðurfjölskylda mín kemur saman á hverju ári. Þar borðum við saltað svínslæri sem er allra besti matur í geimi. Ég fékk mér dálítið af bjór og svo örlítið rauðvín, smá hvítvín og eitthvað dálítið af viskí og viti menn - ég varð pínkulítið fullur. Ég hafði bara gott af því. Þarna tók ég slatta af myndum, Tóti frændi tók helling líka og einhverjir aðrir voru líka að fikta í myndavélinni. Ég á eftir að bæta einhverjum myndum þarna inn, það er heljar vinna að fara í gegnum allar myndirnar. Ég var með rúmlega 800 myndir frá þessum degi en er búinn að skera þær niður í tæplega 400.

Daginn eftir skelltum við okkur í sumarbústaðinn. Það var ansi snjóþungt en við komumst á leiðarenda í jeppanum góða. Frostið var töluvert og við lögðum okkur fram um að kynda bústaðinn. Náðum hitanum samt aldrei upp fyrir tuttugu gráður. Á föstudag fórum við út í snjóinn með stelpunum og lékum okkur í smá stund áður en kuldinn hrakti þær inn. Þessi nútímabörn! Ég ákvað að skjótast á Baulu til að fylla bílinn og versla mjólk og rjóma. Það væri svosem ekki frásögum færandi ef ég hefði ekki smellt bílnum út í skurð á bakaleiðinni, rétt hjá bústaðnum. Var ekki á mikilli ferð, ók á svona 30 í lága drifinu en missti bara stjórn á bílnum. Komst hvorki áfram né afturábak að lokum, var upp við kant að framan og grindverk með gaddavír að hlið. Með aðstoð góðra manna og risastórs traktors bóndans á svæðinu náðist jeppinn upp að lokum, lítið skemmdur. Ég á eftir að láta skoða lakkið og sjá hvort það hafi orðið skemmdir á því. Um kvöldið reyndi ég að sjá eitthvað með nýja stjörnusjónaukanum hennar Áróru en sá ekki neitt. Þarf að leita til sérfræðinga til að læra á hann. Ég og Gyða skelltum okkur svo í pottinn í frostinu, annað var ekki hægt fyrst við vorum búin að hita hann. Við lékum okkur ansi mikið í Wii í bústað. Hún var semsagt tekin með ásamt öllum leikjum og aukabúnaði (sem betur fer).

Hér eru myndir úr bústaðaferð.

Við komum svo heim í dag. Heimferðin gekk hægt þar sem bíllinn var fastur í lága drifinu. Við ókum því á 60km/klst til Reykjavíkur frá Borgaresi. Ég var duglegur að hleypa bílum fram úr en er samt hræddur um að margir hafi bölvað okkur. Það var svo ekki fyrr en við vorum komin í bæinn og búin að skutla Áróru til pabba síns að bíllinn fór loks úr lága drifinu.

Svo við ókum því síðustu kílómetrana heim á eðlilegum hraða og uppgötvuðum þá að dusilmenni höfðu brotist inn til okkar meðan við áttum góða daga í Borgarfirði. Lögreglan mætti á svæðið, áhugalítill rannsóknarmaður mætti á svæðið skömmu síðar og Sjóvá sendi mann til að laga gluggann.

dagbók
Athugasemdir

Daníel - 30/12/07 13:18 #

Þíð eigið alla mína samúð.