Örvitinn

Banaslys í umferðinni

Um þessar mundir er nokkuð fjallað um banaslys í umferðinni og athygli vakin á því hve fá þau voru á síðasta ári. Í fjölmiðlum sjáum við súlurit sem svipar til þessa þar sem tvö síðustu ár eru borin saman.

banaslys_umferd_2006-2007.png

Þetta er gott og blessað og vonandi er starf Umferðarstofu og annarra sem vinna að öryggi í umferðinni að skila árangri. Væri samt ekki gagnlegra að skoða gögnin lengra aftur í tímann?

Ef við skoðum síðustu tuttugu ár lítur grafið aftur á móti svona út, ég bæti "trend línu" við.

banaslys_umferd_1988-2007.png

Vissulega má sjá ákveðið trend niður á við síðustu árin, þó árið 2006 stingi í stúf, en þar á undan var sveiflan upp á við í nokkur ár.

Ég er viss um að tvöföldun Reykjanesbrautar hefur mælanleg áhrif hvað varðar fækkun banaslysa. Aðrar aðgerðir hafa eflaust einnig sitt að segja. Þrátt fyrir það má ekki líta hjá því að tölfræði í svona dæmum sveiflast og það er glórulaust að draga einhverjar merkilegar niðurstöður út frá fækkun banaslysa milli tveggja ára.

fjölmiðlar pólitík
Athugasemdir

Óli Gneisti - 04/01/08 01:41 #

Sparaðir mér að blogga um þetta. Annars finnst mér svona efni oft vera svo nálægt því að eiga heima á Vantrú. Ég man að ég var einmitt að hugsa þetta sama þegar tölurnar um 2006 voru í umræðunni. Við gætum líka prufað að setja tölurnar upp þannig að við myndum búa til súlur sem eru tvö ár en ekki bara eitt.

Ef við erum að hugsa um þróunina í umferðinni mætti spyrja hvað þetta eru í raun mörg banaslys en ekki einfaldlega fókusera á það hve margir dóu. Það vantar líka alla umræðu um það hve margir slösuðust alvarlega á sama tíma. Tölur um alvarleg slys (banaslys + slys þar sem fólk slasast alvarlega) væru kannski betri viðmið um stöðuna heldur en að einblína á þessa einu tölu um fjölda látinna.

Það er líka mönnum frekar óeðlilegt að hugsa um svona hluti út frá tölfræði. Það er bara skelfilegt að heyra þessa háu tölu og huggun að sjá hana lækka. En þetta er væntanlega fölsk huggun eða allavega ýkt.