Örvitinn

Jaðaráhrif og annað fjör

Ég geri mér grein fyrir því að jaðaráhrif skatta geta verið neikvæð þegar skattgreiðendur greiða á einhverju stigi hátt hlutfall umframtekna í opinber gjöld, en af hverju finnst mér málflutningur íslenskra repúblikana frekar ósannfærandi í þessari umræðu? Væri ekki betra ef allir borguðu lægri skatt þó á einhverju stigi væru hærri jaðaráhrif en nú? En auðvitað er þessi umræða flókin, miklu flóknari en repúblikanarnir íslensku vilja láta.

Fireworks at new years eveKastljós fjallaði um vefinn Ljósmyndakeppni.is í fyrradag. Meðal mynda sem voru sýndar í þættinum var þessi flugeldamynd. Ég er náttúrulega dálítið stoltur en það hefði samt verið skemmtilega ef ég hefði verið titlaður höfundur myndarinnar en ekki annar meðlimur ljósmyndasíðunnar. Ég nenni samt ekki að pirra mig á því :-)

Eftir síðustu hátíð er þessi mynd orðin sú sem flestir hafa skoðað á flickr síðunni minni, margir sem hafa skoðað hana undanfarið í leit að flugeldamyndum. Fyrir jól var þessi á toppnum. Annars er ég nú ekki að fá margar heimsóknir miðað við sumar hetjurnar á flickr, sérstaklega virðast myndarlegar stúlkur sem eru duglegar við að taka sjálfsmyndir vera vinsælar. Ég held ég feti ekki í fótspor þeirra á næstunni :-)

Ég fór í mína árlegu heimsókn til tannlæknis í hádeginu. Stoppaði stutt eins og vanalega, skoðun og tannsteinn hreinsaður. Ég get fengið vottorð upp á að ég sé með bestu tennurnar í ættinni!

Kom við á hársnyrtistofunni á jarðhæðinni þegar ég kom til baka og lét rýja á mér hausinn. Hársnyrtirinn sem oft hefur snoðað mig áður (ég myndi segja klippt, en það væru ýkjur) bar kennsl á mig sem vantrúarsinna og við ræddum þau mál örstutt. Þó margir haldi eflaust annað þá boða ég ekki vantrúna öllum stundum :-)

Vantrúarhittingur í kvöld, kvenfélagsfundur annað kvöld. Ég verð þreyttur eftir helgi.

dagbók
Athugasemdir

Arnold - 11/01/08 14:38 #

Einu myndirnar sem fá einhverja smelli hjá mér á Flickr.com eru bara af sætum stelpum, sérstaklega ef þær eru ekki kappklæddar. Hvernig stendur á þessu? Sjónvarpið er fullt af fallegum ( stereotýpunni ) konum, tímaritin o.s.frv. Þetta er orðið þannig að venjulegar ( ekki síður fallegar) konur sem ekki falla undir þessa staðalímynd finnst þær eigi ekki erindi í myndatöku. Þetta er orðið tómt rugl.

Matti, þú verður að vera í dragi á þessum sjálfsmyndum ef að þær eiga eitthvað að trekkja :-)

Kristín - 11/01/08 14:56 #

Er þetta ekki bara spurning um að "tagga" myndirnar sem "sætar stelpur"? Ekki það, ég vorkenni alltaf fólki sem kemur inn á síðuna mína á einhverjum villandi forsendum s.s. eins og í gegnum gúgglið "íslenskar píkur" sem virðist ansi vinsælt.

Matti - 11/01/08 16:15 #

Ég vill hafa myndirnar mínar rétt merktar, skiptir mig minna máli að fá mikið áhorf á myndirnar mínar :-)

Annars þarf ég að reyna að leggja mig fram og taka meira af myndum. Hef verið frekar latur undanfarið. Spurning um að reyna að auka "áhorfið" með því að taka fleiri og betri myndir! Þyrfti þá helst að koma mér út úr húsi af og til :-O

Kalli - 11/01/08 16:24 #

Nú, áttir þú þessa mynd. Ansi flott stykki :)

Annars fæ ég alltaf smá af dubious heimsóknum tengdum aksturshönskunum mínum. Við að rekja þær hef ég fundið furðulegustu blæti sem fólk vill flagga á Flickr.