Örvitinn

Lambakjötsborgararaunir mínar

Í gær ákvað ég að elda lambakjötshamborgara í kvöldmatinn. Fann uppskrift í nýlegum Gestgjafa og skundaði út í búð.

Byrjaði í Bónus, þar fékk ég allt nema lambahakk og ferska basiliku. Fór næst í Þín verslun en ekki fékk ég lambahakk eða basiliku þar og ekki var mikill áhugi á því hjá starfsfólki kjötborðs að redda mér hakki.

Eftir fótbolta kíkti ég í Nóatún í Nóatúni og viti menn, hvorki var til lambahakk né fersk basilika.

Ég keypti því lambaskanka (1400gr) og lambalærisneiðar (250gr) í Nóatúni. Eyddi svo rúmum hálftíma í að skera kjöt af beinum og náði 900gr af þokkalega hreinu lambahakki, þó með dálítið af fitu og sinum. Hakkaði kjötið í matvinnsluvél. Týndi basilikulauf af veimiltítulegri basiliku plöntunni minni og bætti þurrkaðri basiliku við, útbjó svo smá pestó með töfrasprota.

Lambakjötsborgararnir voru góðir með pestó og feta osti, það vantaði ekki. En er skrítið að sala á lambakjöti fari minnkandi þegar úrvalið er ekki betra en þetta og hráefnið er að þriðjungi fita, bein og sinar?

matur
Athugasemdir

Eygló - 04/02/08 11:21 #

Við hefðum nú getað reddað þér lambahakki á no time. Erum alltaf vel byrg af því.

Matti - 04/02/08 13:20 #

Ég hef það í huga næst :-)

Sirrý - 04/02/08 20:04 #

Mamma borðar ekki nautahakk og hefur því reynt að velja Lambahakk í staðinn en það er ekki auðvelt að fá lambahakk en kemur stundum á tilboði og þá reyna þau að versla það. Er ekki hægt að fá þetta í kjötbankanum ?

Annars hjómar þetta rosalega vel.