Örvitinn

Lífið

Kolla og Inga María niðri á gangiVið komum heim um hálf sjö í gærkvöldi eftir fimleikaæfingu hjá Ingu Maríu. Ég burðaðist tvær ferðir úr bílnum með innkaupapokana úr Bónus hitt draslið sem ég ber með mér á hverjum degi.

Stoppuðum á ganginum niðri þar sem Inga María náði að reka hausinn á sér í vegginn þegar hún hallaði sér aftur. Það kostaði nokkrar mínútur í fangi föður hennar.

Ég fór upp með pokana og stelpurnar urðu eftir niðri. Ég gekk frá því sem ég hafði verslað og hóf eldamennsku. Samt varla hægt að tala um eldamennsku þegar maður steikir svínagúllas og hellir súrsætri sósu úr krukku á pönnuna. Ég bætti ananasbitum við svo ég eignað mér eitthvað af þessu.

Þegar allt var tilbúið fór ég niður að sækja stelpurnar sem enn sátu á sama stað á ganginum og hlógu. Inga María hló þó aðallega, Kolla á stundum auðvelt með að kæta hana.

Þær voru ósköp hamingjusamar.

Um það snýst þetta blessaða líf.

dagbók