Örvitinn

Fótbolti, öryggiskerfi og bílskúrskvabb

Ég er orðinn nokkuð hress og skellti mér því í fótbolta í hádeginu. Mikið var það gott og gaman, góð mæting og fínn bolti þó oft hafi verið skoruð fleiri mörk í innibolta, spiluðum einn leik á 45 mínútum og hann endaði 9-9. Ég held ég hafi skorað fimm mörk.

Eftir fótbolta brunaði ég heim, hafði mælt mér mót við tæknimann frá Securitas klukkan eitt. Ég hélt þetta tæki kannski klukkutíma en þetta var meira mál og tímarnir urðu fimm. Hann var semsagt að setja upp öryggiskerfi. Nú eru hér hreyfiskynjarar, segulskynjari og reykskynjarar tengdir við Securitas. Við verðum afslappaðri en ella næst þegar við förum í bústaðinn. Ef þið eruð að spá í að fá ykkur kerfi, hafið þá samband við mig. Ég fæ afslátt ef ég færi þeim nýjan viðskiptavin og er alveg til í að deila þeim afslætti með ykkur ;-) (ég fengi 2 mánuði frítt, myndi greiða ykkur andvirði eins mánaðar)

Lagt fyrir framan bílskúrinn okkarÉg fór aftur í vinnuna klukkan sex og vann frameftir, sem er ekki í frásögur færandi. Kosturinn við að vinna á kvöldin er að þá verður opna rýmið að einkaskrifstofu. Þegar ég kom heim rétt fyrir tíu var búið að leggja bíl fyrir framan bílskúrinn okkar. Það hefur áður komið fram að fátt fer meira í taugarnar á mér, jafnvel þó ég hafi fengið stæði og ekki þurft að rölta langt. Hvað er fólk að spá þegar það leggur fyrir framan bílskúra annarra? Hvað ef það hefði verið bíll inni í þessum skúr (undanfarið höfum við lagt Gyðu bíl af og til inni í bílskúr).

Auk þess að taka mynd skrifaði ég "fífl" með spegilskrift í snjóinn á framrúðu bílsins. Já, ég er stundum tíu ára inni í mér :-)

dagbók