Örvitinn

Æi, blogggáttin er enn að elta fólk

Ég var of fljótur á mér, það er enn þörf á þessu scripti til að losna við þennan bévítans blogggátar haus. Nú er hann enn stærri og meira áberandi en áður. Til að gæta sanngirni er vert að taka fram að vissulega er takkinn til að loka hausnum einnig meira áberandi. Það virðist handahófskennt hvenær hausinn/umslagið birtist, hann birtist bara stundum hjá mér (þegar ég er ekki með scriptið í gangi).

Í alvöru talað, sleppið þessum haus. Það er að mínu hógværa mati dónaskapur að taka yfir heimasíður annarra eins og þið gerið með þessu. Auk þess að er það hnýsni að "elta fólk" á vefnum eftir að það hefur notað ykkar síðu. Að mínu mati eiga vísanir bara að vera vísanir, notendur eiga svo að ráða því hvort vísunin opnast í nýjum glugga/tab og hvort þeir koma aftur á síðuna sem vísunin var á. Ekki breyta hegðun vafra að ástæðulausu.

vefmál
Athugasemdir

Óli Gneisti - 03/03/08 22:51 #

Þetta á að vera tengt því hvort þú sért innskráður hjá þeim eða ekki. Ættir að sleppa ef þú ert það.

Matti - 03/03/08 23:11 #

Mér finnst hegðunin ekki skárri þó maður sleppi við hana ef maður er innskráður.

Ég hef semsagt verið að sjá þetta af og til, hugsanlega er það einhver böggur í útfærslu. Ég myndi bara vilja sjá þá sleppa þessu. Veraldarvefurinn er að ég held ágætis hugmynd sem hefur sannað sig nokkuð vel, það er engin ástæða fyrir þá að reyna að "laga" vefinn með þessu.

Markús - 03/03/08 23:12 #

Mig langar að leiðrétta þig þar sem þú ferð með rangt mál.

Í fyrsta lagi þá er ekkert handahófskennt hvenær "hausinn/umslagið" birtist, það birtist aðeins ef þú kemur frá annarri síðu heldur en BloggGáttinni, þetta á líka við um iframe-ið sem notendur geta haft á heimasíðu sinni.

Í öðru lagi, þá er BloggGáttin ekkert að "elta fólk" eins og þú heldur fram.

Vinsamlegast sýndu verki annarra meiri virðingu og gagnrýndu á málefnalegan og uppbyggilegan hátt. Þú hefur engan kröfurétt til BloggGáttarinnar. Það er tekið á móti öllum uppbyggilegum tillögum í gegnum vefsvæði BloggGáttarinnar. Síðan eru teknar ákvarðanir um útfærslu úr frá hagsmunum BloggGáttarinnar sjálfrar og notenda hennar. Réttara væri að sýna þakklæti fyrir það að nú er til þjónusta sem færir þér stöðugan aðgang að bloggheimum öllum að kostnaðarlausu.

Matti - 03/03/08 23:18 #

Markús, ég er notandi. Ég get ekki talað um annað en það sem ég upplifi.

Þetta hefur virkað handahófskennt hjá mér. Ég hef smellt á linka á blogggáttinni og fengið haus á sumar síður en ekki aðrar út frá sama blogggáttarglugga.

Víst ertu að elta notandann þegar þú setur umslag utan um þær síður sem hann skoðar. Þegar ég er með haus frá ykkur og smelli á link á síðunni fylgir hausinn ykkar, ég er að browsa inni í ykkar ramma. Ég er ekki að segja að þið séuð að fylgjast með því sem notendur gera - en ykkar gluggi fylgir notandanum. Þetta gerir það svo að verkum að notendur sem ekki þekkja vel á virkni vefsins (sem eru margir) setja vitlausar vísanir hingað og þangað, því það slóðin í vefráparanum er ekki í samræmi við síðuna sem fólk er að skoða. Ég hef séð þetta ótal sinnum.

Mér finnst þetta gagnrýnivert og ég gagnrýni það. Þessi útfærsla pirra mig og ég skil ekki af hverju þið haldið þessari hegðun inni. Sé engin góð rök fyrir því.

Ég hrósa líka þegar mér finnst ástæða til þess. Þú getur pælt í gagnrýninni, hundsað hana ef þú villt eða þú getur sett þig á háan hest og farið í fýlu. Þitt er valið.

Matti - 03/03/08 23:48 #

Við þetta má bæta (því ég hef uppfært síðustu athugasemd nægilega oft) að ég hafði hugsað mér að nota blogggáttina frá upphafssíðunni, inni í iframe. Ég sé ekki betur en að þá sé þessi haus alltaf inni.

Kalli - 04/03/08 10:40 #

Eftir nokkrar handahófskenndar tilraunir hef ég ekki séð neina Blogggáttaslá á síðunum sem Gáttin vísar á. Góð tilbreyting enda er ég sammála Matta um að svona slár séu ósmekklegar og leiðinlegar.

Borgar - 04/03/08 11:31 #

Ég fæ umrædda umslag þegar ég fer í gegnum iframe en ekki ef ég fer í gegnum Gáttina sjálfa.

Ég stóð í þeirri trú að það ætti að afnema umslagið? Sbr. það sem hér stendur.

Smá tip: Það er auðvelt að framkalla þessa iframe virkni með hjálp pipes.yahoo.com.

Matti - 04/03/08 11:38 #

Það er afar sennilegt að mér hafi ranglega sýnst þessi hegðun handahófskennd en hafi í raun verið að fara á blogggáttina í gegnum þessar tvær leiðir handahófskennt og ekki greint mynstrið. Ég játa að ég var ekki að prófa þetta mjög skipulega.

Már - 04/03/08 15:09 #

Í pósti október, í beinu framhaldi af gagnrýni minni á þessa frameset-áráttu Blogggáttarinnar og fullyrðingu Markúsar um að af henni yrði látið með frá og með næstu útgáfu, þá spurði hann mig hvort ég væri fáanlegur til að líta yfir nýju gáttina áður en hún færi í loftið.

Ég játti því, enda vildi ég sýna lit í að vera uppbyggilegur við þá.

Svo heyrði ég ekkert meir, og frameset-áráttan virðist enn við lýði.

Markús - 04/03/08 19:54 #

Þó svo að ábending þín, Matti, hafi ekki komið um hefðbundinn farveg og var sett fram á heldur ómálefnalegan hátt þá er mark takandi á innihaldi hennar. Betra hefði verið að fá vinsamlega áminningu um að útfærslan væri þér ekki að skapi og athuga hvort það hafi verið vel ígrundað að hafa útfærsluna svona. Vegna ábendinga frá þér og fleirum í þessa veru var málið endurskoðað og niðurstaðan er:

Umslagið/framesettið/ramminn mun hverfa á öllum síðum BloggGáttarinnar, þetta á við um iframe-ið líka. Hins vegar mun hann ekki hverfa ef þú kemur frá aðilum sem eru í samstarfi við BloggGáttina og nýta þjónustu gáttarinnar á sveigjanlegri hátt en almennum notendum býðst, má nefna Eyjuna sem dæmi. Ástæðan fyrir því er sú að notendur átti sig á því að þjónustan er í gegnum BloggGáttina en ekki á vegum Eyjunnar. BloggGáttin er enn í þróun og ekki er ekkert sem heitir endanleg ákvörðun. Það má vera að umslagið verði þar ekki að eilífu.

Már: Ég skal alveg viðurkenna það að ég bara hreinlega gleymdi þér, en það voru velkunnir bloggarar fengnir til þess að gefa álit á nýju útgáfunni áður en hún fór í loftið.

Matti - 04/03/08 20:03 #

Ég hef áður kvartað undan þessu umslagi Markús, þar með talið í athugasemd á ykkar síðu þegar þið báðuð um uppástungur. Á þessari bloggsíðu koma fram skoðanir mínar, hvort sem það er á bókum, kvikmyndum eða rss veitum.

Síðan sem birtist frá ykkur inni í iframe er rækilega merkt blogggáttinni. Ég hefði haldið að það væri næg merking.

Ég sé ekki hvað var "ómálefnalegt" við þessi skrif mín :-|

Már - 05/03/08 09:47 #

Kæri Markús.

Gagnrýni okkar á rammana hefur eingöngu með það að gera að með þeim setjið þið fangamark ykkar á bloggsíður annara og (í a.m.k. einhverjum tilfellum) hirða af þeim Google-"djús".

Það hvernig samstarfs-/birtingarsamning þið kjósið að gera við Eyjuna eða aðrar vefsíður, breytir engu þar um.

Þið eruð að gera þrusugóða hluti með þessari síðu ykkar, og þessi innrömmunarárátta stingur gróflega í stúf við allt hitt.

Kalli - 05/03/08 10:49 #

Þó svo að ábending þín, Matti, hafi ekki komið um hefðbundinn farveg og var sett fram á heldur ómálefnalegan hátt þá er mark takandi á innihaldi hennar.

Fyndið að sjá þessa athugasemd frá málsvara vefsíðu sem safnar og vísar á bloggfærslur.