Örvitinn

Skálafell

Skálafell

Ég fór í Skálafell í gær í fyrsta sinn í afskaplega langan tíma. Fór í afmæli í KR skálanum fyrir tólf árum en það eru að minnsta kosti átján ár síðan ég fór í skíðabrekkuna. Ég fór reyndar ekki á skíði í gær heldur skutlaði Kollu og Ingu Maríu uppeftir. Foreldrar mínir tóku á móti þeim og fóru með þær á skíði.

Þegar ég beygði upp afleggjarann að Skálafelli fann ég bragð af kakói og samlokum, minningin af skíðamennsku braust þannig fram.

Inga María og afi hennar á skíðumKolla var orðin slöpp þegar við komum upp í fjall, verkjaði í eyra og verkjatafla dugði ekki. Hún fór aðeins á skíði en entist ekki lengi. Inga María var hress og skíðaði mikið. Fór þrjár ferðir ein í barnalyftunni og hafði gaman að. Var alveg óhreidd og brunaði niður.

Ég hefði verið til í að renna mér eina eða tvær ferðir og rifja aðeins upp skíðamennsku. Get fengið lánuð skíði og skíðaskó hjá afa - stefni á að renna mér a.m.k. eina ferð í vetur!

Þegar við lögðum af stað heiman fann ég sólgleraugun mín sem ég týndi fyrir einhverjum vikum. Þó voru milli framsæta í bílnum. Er ég ók svo heim frá Skálafelli fattaði ég að aftur hafði ég týnt gleraugunum. Sneri öllu við í bílnum en fann þau hvergi. Hafði þá misst þau í brekkunni en svo heppilega til að mamma fann þau.

Ég fór og glápti á Liverpool leik, það var ekki mikil skemmtun í þetta skiptið. Liðið spilaði ekki jafn vel og í síðustu leikjum en náði sem betur fer að vinna.

Ætlaði í fótbolta klukkan fimm en við komum að luktum dyrum, svo virðist sem páskar séu byrjaðir í íþróttahúsi Kársnesskóla. Það voru vonbrigði gærdagsins að missa úr boltadag.

Skíðafólkið safnaðist saman á heimili foreldra minna í gærkvöldi og við pöntuðum pizzur.

Seint og síðar meira glápti ég aleinn á bíómyndina Transformers. Það er nú meira draslið.

dagbók