Örvitinn

Aprílgabb Vantrúar

Mér fannst dálítið skemmtilegt að taka þátt í aprílgabbi Vantrúar. Óli Gneisti átti hugmyndina og skellti upp vefsíðunni andkristni.net á mettíma í gær. Í dag var sett inn yfirlýsing og stefnuskrá þar sem ég fékk dálítið hressilega gusu yfir mig!

Við settum í framhaldi á svið rifrildi á Vantrú þar sem ég var í hlutverki kokkálaða formannsins sem er að missa félagið úr höndunum vegna þess að hann er hræddur við að stuða fólk og rembist við að bæta ímynd félagsins . Við reyndum að nota ýmislegt frá gagnrýnendum okkar, annálistarnir Pétur og Árni eiga dálítið í þessu:

Það er lykillinn að farsælli framtíð félagsins að við setjum málstað okkar fram með hóflegum hætti og reynum að stuðla að samtali milli ólíkra hópa. Við verðum að tala inn í aðstæður og átta okkur á því að stundum þarf eitt ekki að útiloka annað.
...
Þarf eitt að útiloka annað? Getum við ekki unnið að því að stuðla að þvertrúar- og þvertrúleysislegu samtali milli allra. Samtali þar sem virðing er borin fyrir öllum skoðunum og hugtök eins og "sannleikurinn" eru lögð til hliðar - enda skila þau engu nema endalausu karpi og ala á ósætti milli menningarhópa.

Ég verð að játa að stundum á ég voðalega erfitt með að ljúga og fæ dálítinn móral yfir því að fólk hafi fallið fyrir þessu. Aftur á móti finnst mér krysslingarnir Guðsteinn og Linda óttalegir kjánar. Hver er tilgangurinn með því að ljóstra upp um aprílgabb með þessum hætti? Að sjálfsögðu fjarlægðum við allar athugasemdir sem nefndu 1. apríl eða gáfu vísbendingu um að þetta væri gabb. Settum þær aftur inn í kvöld.

Ég vil einnig taka fram að ég er ekki í raun aðdáandi Ayn Rand :-)

vísanir Ýmislegt