Örvitinn

Kristilegu íhaldsmennirnir delera enn og aftur

Þegar ég kallaði þá fávita fengu einhverjir aðdáendur Vefþjóðviljans hland fyrir hjartað svo það er best ég spari stóru orðin í þetta skipti.

Ég veit samt ekki hvaða orð er betra yfir kristilegu íhaldsmennina á andríki. Það er allavega ljóst af þessum pistli að rökvísi er ekki þeirra sterkasta vígi. Þegar allt kemur til alls eru þetta bara grunnhyggnir áróðursmenn íhaldsarms Sjálfstæðisflokksins, Ríkiskirkjunnar og auðmanna sem eru þeim hliðhollir.

Í þessari grein fjalla kristilegu íhaldsmennirnir um frumvarp til nýrra leik- og grunnskólalaga þar sem "kristilegt siðgæði" er tekið út. Um þetta mál var töluvert fjallað í lok síðasta ár.

Raunar var ekki á almannavitorði að þessi orð [kristilegt siðgæði] yllu sérstökum vandkvæðum, en sérfræðingar menntamálaráðuneytisins vissu betur.

Þó eitthvað sé ekki á almannavitorði er ekki þar með sagt að það sé ekki satt. "Kristilegt siðgæði" olli sérstökum vandkvæðum - íhaldsmennirnir gætu prófað að lesa rökstuðning með frumvarpinu til að kynna sér málið. Meðal þeirra sem höfðu bent á vandkvæði var Mannréttindadómstóll Evrópu - en vefþjóðviljamenn hafa svosem ekki verið þekktir fyrir að vera sérstakir aðdáendur mannréttinda - a.m.k. ekki þegar þau þvælast fyrir stórfyrirtækjum eða Ríkiskirkjunni. Meðal vandkvæða sem "þessi orð" hafa valdið er að trúarnöttarar í Ríkiskirkjunni hafa ítrekað reynt að réttlæta kristniboð í leik- og grunnskólum með vísun til þessa orða. Það er því rík ástæða til að breyta lögunum.

Í stað kristilegs siðgæðis kemur:

Hlutverk grunnskóla, í samvinnu við heimilin, er að stuðla að alhliða þroska allra nemenda og þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi sem er í sífelldri þróun. Starfshættir grunnskóla skulu mótast af umburðarlyndi, jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi og virðingu fyrir manngildi. Þá skal grunnskóli leitast við að haga störfum sínum í sem fyllstu samræmi við stöðu og þarfir nemenda og stuðla að alhliða þroska, velferð og menntun hvers og eins.

Álit íhaldsmanna á þessu er skorinort:

Nú dettur auðvitað fáum í hug, að froðusnakksgreinar eins og þessi hafi nokkra raunhæfa þýðingu í daglegu skólastarfi. „Starfshættir grunnskóla skulu mótast af ábyrgð og sáttfýsi“ er auðvitað innihaldslaust þvaður, eins og svona lagagreinar eru jafnan.

Takið eftir að "kristilegt siðgæði" er ekki "froðusnakk" eða "innihaldslaust þvaður" að mati kristilegra íhaldsmanna en þessi nýi texti fær þann dóm. Væntanlega vegna þess að hann leysir "kristilegt siðgæði" af hólmi.

Mikið væri gaman ef kristilegu íhaldsmennirnir á Andríki gætu sagt okkur hvað felst nákvæmlega í kristilegu siðgæði. Ég geri ráð fyrir að sú skilgreining þeirra verði hvorki "froðusnakk" né "innihaldslaust þvaður".

Einhverjir eru eflaust hissa á því að ég láti þetta lið fara í taugarnar á mér. Ég kann enga eina skýringu á því. Eflaust pirrar það mig að þeir sigli undir fölsku flaggi - en hugsanlega er ástæðan sú að einu sinni var ég óskaplega oft sammála þeim.

kristni pólitík
Athugasemdir

Reynir - 04/04/08 08:12 #

Í grein Vefþjóðviljans stendur: "Veit menntamálaráðuneytið dæmi þess að gildandi orðalag grunnskólalaganna hafi orðið til tjóns? Fyrir hverjum var þetta orðalag og hvers vegna?"

Greinarhöfundur afhjúpar þarna fáfræði sína. þessi klausa hefur verið notuð, með röngu, til að réttlæta trúboð í skólum og mismunun vegna trúarbragða, það er skjalfest.

Ef kristilegt siðgæði ætti að móta skólastarf í raun ætti auðvitað að koma börnunum í skilning um að samkynhneigð er viðurstyggð og þeir sem hafa skilið og gifst aftur eru hórkarlar og konur. Börnum væri kennt að hata líf sitt í þessum heimi og þá ekki síður föður sinn, móður, bróður og systur í þokkabót.

Út í hafsauga með kristilegt siðgæði, takk.