Örvitinn

Norðurljós og nefháraklippur

Helgin var tíðindalítil eins og yfirleitt. Ég skellti mér á Players í hádeginu á laugardag og horfði á Liverpool leikinn. Á miðvikudag var Liverpool heppið að ná stigi en í þessum leik hefði varalið Liverpool átt að vinna leikinn, var betra nær allan tímann og átti betri færi, sérstaklega píparinn Voronin.

Fór í innibolta klukkan fimm á laugardag. Það var skelfilegt. Ég var slakur og liðið mitt spilaði hörmulega - ég lét allt fara í taugarnar á mér og var ógurlega pirraður. Ég svitnaði þó.

Fjölskyldan fór út að borða á laugardagskvöldið. Fórum á Ruby Tuesday á Höfða. Það er alveg ágætis staður, maturinn ekki merkilegur en þessi tegund staða hentar ágætlega fyrir fjölskyldur. Rifin eru líka fín, enda erfitt að klúðra forelduðum svínarifjum. Þetta er Hard Rock með lægri tónlist.

Norðurljós við HafravatnEftir mat fórum við smá rúnt, kíktum á sólsetur í vesturbænum, fengum okkur ís í ísbúðinni Álfheimum (sem er ekki lengur í Álfheimum) og ókum svo upp að Hafravatni þar sem ég reyndi að taka myndir af norðurljósum. Það gekk ekkert alltof vel og stelpurnar nenntu ekki að bíða meðan ég bisaðist við að taka myndir. Næst fer ég einn í norðurljósatökur :-)

Í gær fórum við í fermingarveislu hjá Karítas. Kíktum svo í Elkó þar sem ég fann enga almennilega vasamyndavél handa Gyðu. Sá nokkra 50" flatskjái sem ég væri alveg til í að eiga en er ekkert á leiðinni að fjárfesta í slíku tæki, tími nefnilega ekki að borga fyrir aðgang að sjónvarpsefni í HD og þá er tilgangslítið að eiga hágæðaskjá. Í staðin endurnýjaði ég loks nefháraklippurnar! Hversu sorglegt er að eiga slíka græju?

Talandi um nefháraklippurnar, það var mynd af hjónunum sem stálu mínum í helgardagblaðinu. Það á víst að fara að taka mál fyrir gegn þeim en ég veit ekki hvort okkar innbrot er hluti af því. Samkvæmt upptalningu í fréttinni virðist það ekki vera inni í þessu heldur er um eldri mál að ræða.

Nokkrar myndir

dagbók
Athugasemdir

Kalli - 07/04/08 12:30 #

Við erum greinilega á líku reki. Stundum pæli ég í að kaupa mér nasaháraskera. Virkar þannig líka á hárin í eyrunum?

Mikið er ég annars ánægður að norðurljósatíminn er að verða búinn. Eftir ca. hálft ár á LMK er ég búinn að fá ofnæmi fyrir norðurljósum. Missti áhugann á að taka þannig myndir áður en ég reyndi sjálfur.

Matti - 07/04/08 12:43 #

Jújú, þetta er fyrir bæði eyru og nef.

Það getur verið gaman að reyna að ná góðum norðurljósamyndum - þetta er heilmikil kúnst. En já, það er meira en nóg komið af þessu á lmk.

Kalli - 07/04/08 13:21 #

Reyndar kíkti ég svo á þínar myndir og fannst þær bara nokkuð flottar. Stökk á næsta norðurljósaþráð á LMK og fannst það líka nokkuð flottar myndir.

Kannski af því að ég hef forðast í meira en mánuð að skoða norðurljósamyndir en mig grunar að bæði hjá þér og þeim sem ég skoðaði á LMK hafi opnunartíminn verið stuttur.

Ég held að ég sé aðallega pirraður á long exposure norðurljósamyndum þar sem allt er orðið bjart og himininn grænn. Sem er örugglega það sem ég hefði reynt svona þar til í dag. Nú væri ég alveg til í að prófa :)