Örvitinn

Verðbólga og sparifé

Ég hélt að vaxtahækkanir Seðlabanka ættu að hvetja til sparnaðar. Nú er það markmið ekki einu sinni að nást. 11.8% verðbólga í apríl og verðbólga síðustu þriggja mánaða "jafngildir 28% verðbólgu á ári".

Miðað við þessar fréttir er sparifé að brenna upp þó það sé á hæstu mögulegu óverðtryggðu bankavöxtum. Til að verðtryggja sparifé þarf að binda það til þriggja ára að lágmarki. Ég get ekki bundið minn sparnað svo lengi þar sem ég þarf að nota hann í viðhald á húsnæði bráðlega.

Hvað getur fólk sem á sparnað gert í þessari stöðu?

pólitík
Athugasemdir

SP - 28/04/08 12:25 #

Þú verður bara að hegða þér eins og menn voru vanir á tímum óðaverðbólgunnar: eyða peningunum jafnóðum frekar en að láta þá brenna upp í bankanum.

Ef viðhald á húsinu stendur fyrir dyrum, þá kaupirðu bara steypupokana núna og geymir þá fram að framkvæmdum...

Björn Friðgeir - 28/04/08 13:17 #

Markaðsreikningar, óbundnir en með lágmarksupphæðum eru yfir verðbólgu.

Matti - 28/04/08 13:48 #

Við erum með megnið af okkar sparifé á netreikning sem er með 14,60% vexti.

Lárus Viðar - 28/04/08 15:38 #

Vertu bara feginn að eiga eitthvað sparifé ;)

En án gríns þá er þetta frekar súr staða fyrir Íslendinga. Þeir geta ekki fjárfest í steinsteypu eins og á fyrri verðbólguárum þar sem fasteignamarkaðurinn gæti tekið kollsteypu bráðlega. Hlutabréf eru ekki örugg fjárfesting eins og stendur auk þess sem verðbólgan étur þau eins og annað. Lítið hægt að gera í þessu en að bíta á jaxlinn og bíða eftir næsta góðæri.

Matti - 28/04/08 16:40 #

Já, það er dálítið skrítið að kveinka sér undan því að eiga sparifé á þessum síðustu og verstu tímum - þetta er óneitanlega miklu betra en að vera með yfirdrátt.

Manni finnst bara eitthvað svo skítt að hlusta á réttlætingar á vaxtahækkunum einn daginn - en komast svo að því þann næsta að þessir háu vextir eru lægri en verðbólgan.