Örvitinn

Berlín - ferðasaga

Þarsíðustu helgi, dagana 18.-21. apríl, fórum við hjónin með vinnufélögum mínum hjá Trackwell til Berlínar.

Ég skrifaði ferðasöguna í punktaformi á kassakvittanir á flugvellinum í Berlín meðan við biðum eftir frestuðu flugi Iceland Express. Hef svo pikkað þetta inn í nokkrum lotum. Þetta er því illa skrifað og ruglingslegt.

Fríhöfnin og flugferðin

Við lögðum af stað úr bænum á hádegi á föstudag, áttum bókað flug kl. 15:30. Sóttum Jón Magnús og Mílenu í Kópavog og skunduðum á löglegum hraða til Keflavíkur.

Innritun gekk eldsnöggt fyrir sig og ég lét bílinn í hendur Securitas. Pantaði hjá þeim allann pakkann. Kostnaðurinn hverfur hvort sem er í ferðakostnaðarhítina.

Ingó með kassann sinnVið kíktum á myndavél handa Gyðu, vorum ekki enn búin að kaupa nýja vél handa henni eftir innbrotið. Ég hef verið að skoða helling af vélum en ekkert fundið sem ég hef verið sáttur við. Úrvalið var ágætt en valið auðvelt, einungis ein vél var með linsu sem var víðari en 35mm, sú sem við keyptum var 28mm á gleiðari endann. Við keyptum semsagt Canon Ixus 860. Hún hefur það sem Gyða þarf, er nett, tekur fín vídeó og er með hristivörn í linsu. Ég hefði viljað vél sem hægt væri að krukka betur í (stilla ljósop og hraða) en þetta er ekki vél handa mér :-) Ég keypti einnig ódýra rafmagnsrakvél, en það var eitt af því sem við endurheimtum ekki. Fjárfestum líka í sólgleraugum, ég keypti hræódýr gleraugu þar sem mín urðu eftir úti í bíl - Gyða keypti örlítið betri sólgler til að setja yfir sín gleraugu. Löngu kominn tími til. Svo keypti ég líka rakakrem, ég kaupi bara snyrtivörur í Fríhöfninni, vil nefnilega ekki að fólk viti að ég er metró.

útsýni yfir suðausturlandiAnnars var það samdóma álit allra að Ingólfur hefði unnið verslunarkeppnina því hann keypti kampavín með glösum í stórum gulum kassa! Gerði örugglega rosalega fín kaup þar.

Flugið fór á réttum tíma og var tíðindalítið. Útsýnið var ansi gott og ég dundaði mér við að taka myndir út um gluggann með nýju vélinni hennar Gyðu. Gaman að fljúga yfir Færeyjar og Noreg í góðu skyggni.

Föstudagskvöld, hótelvesen og grískur veitingastaður

Klukkan var langt gengin í ellefu þegar við komum á Gates hótelið við Knesebeckstrasse. Við fengum herbergi 109 og skunduðum þangað til að henda töskunum inn. Þegar við komum í herbergið gengum við á vegg. Höfðum fengið reykingaherbergi og það var verulegur fnykur þar inni. Ákváðum strax að sætta okkur ekki við þetta, fannst báðum fáránlegt að borga stórfé (þannig talað) fyrir hótelherbergi og vera í reykingakompu. Í afgreiðslunni var okkur sagt að ekkert væri laust, en eftir smá fýlu "fannst" stærra herbergi. Við vorum sátt með herbergi 320.

Jón Magnús með flösku af grísku hvítvíniVið vorum því ansi seint á ferðinni þegar við röltum af stað í leit að veitingastað. Hópurinn skiptir sér upp, við vorum of mörg til að komast á einn stað með engum fyrirvara. Við enduðum grískum veitingastað. Vertinn var eldhress og tók vel á móti okkur. Jón Magnús fékk sér flösku af grísku hvítvíni, flaskan og glasið minnti frekar á vodka en hvítvín, vínið var samt ágætt. Maturinn var fínn, ég fékk mér músakka sem var ansi gott - bæði með kartöflum og eggaldin. Ég hélt að gríska útgáfan væri bara með eggaldin. Grískur kavíar í forrétt var ljúffengur en mér fannst skrítið að hummus var ekki á matseðli og vertinn kannaðist ekkert við það.

Við vorum komin á hótel um tvö um nótt.

Laugardagur

Göngutúr

Það var víst á mínum herðum að leiða hópinn um Berlín á laugardeginum. Við skelltum okkur í neðanjarðarlestina á Ernst-Reuter Platz stöðinni. Eftir smá vesen meðan allir redduðu sér lestarmiðum tókum við U2 lestina á Potsdamer Platz. Þar rákumst við á fullt af fótboltaunnendum (bullum) og komumst að því að þennan dag voru úrslitaleikirnir í Þýska bikarnum spilaðir í Berlín.

Helfararminnismerkið í BerlínVið röltum að helfararminnismerkinu og skoðuðum það. Gengum svo framhjá Brandenborgarhliðiðnu þar sem búið var að setja upp risaskjá fyrir fótboltabullurnar. Hugmyndin var að kíkja upp á hvolfþak Reichstat en þar var asni löng röð og við hættum því snarlega við það. Gengum Unter den Linden þar sem nokkuð fækkaði í hópnum, enda um frjálslega ferð að ræða og ekki skyldumæting í göngutúrinn.

Við vorum átta eftir sem stoppuðum á ansi fínu kaffihúsi sem kennt var við óperu (húsið með brúna þakinu á þessu google maps korti). Þar fengum við okkur þýska kartöflusúpu og bjór. Súpan var ansi góð, í ætt við íslensku kjötsúpuna - dálítið þykkari með kartöflum og pylsum. Þessi hópur átti eftir að halda saman laugardag og sunnudag.

Gyða og Mílena á markaðnum Við ána römbuðum við á lítinn markað og sem við skoðuðum, keyptum eitthvað smotterí áður en við röltum áfram að Dómkirkjunni. Stoppuðum ekki þar því við tímdum ekki að borga inn, gengishrunið var eitthvað að fara með okkur þarna og héldum áfram för okkar að útvarpsturninum. Ekki tókst okkur að fara upp í hann, höfðum ekki verið lengi í biðröðinni þegar tilkynnt var í hátalarakerfi að af öryggisástæðum yrði ekki fleira fólki hleypt upp þann daginn. Bömmer!

Fórum út og fengum okkur bjór sem kostaði eina evru stykkið. Steini ætlaði að gera góð kaup og tók sér hálfslítersflösku, kaupin þóttu ekki mjög góð þegar í ljós kom að sá bjór var áfengislaus og vondur.

Klukkan var rúmlega þrjú og stelpunum langaði að kíkja í verslunarmiðstöð. Við röltum því að Alexa stöðinni sem var rétt hjá. Ég og Jón Magnús kvöddum hópinn þar og fórum í leit að írskum pöbb þar sem við gætum horft á Liverpool leikinn. Garmin tækið fann slíkan stað í kílómeters fjarlægð og við röltum stað, höfðum ekki gengið lengi þegar tækið varð rafmagnslaust. Með hjálp Opera mini og google fundum við heimilsfang og fundum Kilkenny pöbbinn við lestarstöðina í Hackescher Markt. Jón Magnús og Steini fyrir utan Kilkenny barinnVið vorum mættir tímanlega og skoðuðum útimarkaðinn, Jón Magnús keypti síðasta parmesan oststykkið hjá ostasalanum. Gerði góð kaup þar.

Gláptum á leik Liverpool og Fulham í fínni stemmingu, Steini mætti á svæðið og við þrír fengum okkur nokkra bjóra yfir leiknum.

Héldum svo heim á hótel með S9 lestinni, en þetta var í eina skiptið í ferðinni sem ég fór í aðra lest en U2.

Árshátíð

Árshátíð Trackwell var haldið um kvöldið á veitingastaðnum Sachs sem er í eigu Íslendings. Staðurinn er við sömu götu og hótelið og stutt að ganga þangað. Við vorum útaf fyrir okkur í innri salnum, annar íslenskur hópur var í fremri salnum.

Árshátíðin var stórskemmtileg, staðarhaldari og fararstjóri voru með ágætis atriði og pólskir tónlistarmenn spiluðu skemmtilega tónlist. Maturinn var ágætur, ekkert frábær en nokkuð góður.

Þegar klukkan var eitthvað gengin í tvö héldum við í leit að næturklúbbi sem við áttum að geta gengið inn á vegna reddinga eiganda Sachs. Það gekk reyndar illa og eftir að hafa beðið í röð var hópnum vísað frá. Sem betur fer, klukkan var orðin tvö og kominn tími á að halda heim á hótel - þetta hefði endað í einhverri vitleysu ef okkur hefði verið hleypt inn.

Sunnudagur

Checkpoint Charlie

Við fórum ekkert sérlega snemma af stað á sunnudegi enda þreytt eftir árshátíð. Náðum þó morgunverði á hótelinu. Leigðum dagspassa í lestina á hótelinu, hefðum gjarnan vilja vita af því fyrr. Fyrir fjórar evrur fengum við kort sem dugið fyrir 2 allan daginn.

Héldum svo með hópi fólks og stefndum á Checkpoint Charlie. Fórum út á örlítið vitlausum stað og skoðuðum meðal annars Gendarmenmarkt áður en við röltum að safninu. Eyddum smá tíma inni á safni, mér fannst það ansi áhugavert en þó komið nokkuð til ára sinna - mætti alveg við smá endurnýjun.

Eftir safnið var fólk orðið hungrað, klukkan að verða þrjú og við fórum því stystu leið - beint á ítalskan veitingastað hinum megin við götuna. Fengum þar afskaplega vel útilátinn mat og nokkra bjóra. Ég var reyndar ekkert mjög bjórþyrstur til að byrja með en lét mig hafa það.

Flóamarkaður

Menn að skoða eitthvað drasl á flóamarkaðnumÁkváðum yfir matnum að finna einhvern markað. Höfðum ekki mikinn tíma þar sem þeir lokuðu klukkan fimm. Tókum því U2 enn og aftur, fórum út á Eberswalder og röltum að flóamarkaðnum við Mauergarðinn. Þar var verið að selja helling af skrani, glingri og vafalaust eitthvað af þýfi. Það var gaman að rölta þarna um og skoða mannlífið, við versluðum ekki mikið. Gyða keypti hringa handa stelpunum fyrir smáklink. Það var áhugavert að sjá að þarna var verið að selja dót úr dánarbúum, þar með talið ljósmynd af ömmu gömlu!

Við röltum því næst að Kollwitzplatz. Það var ekki mikið um að vera þarna á sunnudegi en við settumst niður fyrir framan kaffihús og fylgdumst með mannlífinu í garðinum þar sem nokkuð var um barnafólk. Röltum að Senefeldarplatz, á lestarstöðinni stillti ég hópnum upp fyrir myndatöku áður en við tókum U2 aftur á Hótel. Ákváðum að fara öll saman seint út að borða þetta kvöldið og tókum okkur tveggja eða þriggja tíma pásu á hótelinu. Gyða lagði sig en ég dundaði mér á netinu.

Indverskur staður

Maturinn á indverska staðnum Um klukkan níu hittist hópurinn í anddyri hótelsins til að fara út að borða. Við ákváðum að fá okkur eitthvað indverskt og röltum út að leita að slíkum stað. Ég studdist við Garmin tækið góða sem ekki reyndist mjög gagnlegt í þetta skipti. Fyrsti staðurinn sem við fundum var alltof lítill, sá næsti var ekki lengur til staðar en að lokum römbuðum við á veitingastaðinn Calcutta þar sem við fengum fínan mat og borðuðum afskaplega mikið.

Komumst svo að því þegar við vorum að yfirgefa hótelið á mánudagskvöldi að 30 metra í hina áttina var indverskur veitingastaður.

Mánudagur

Kurfurstendamm og Kadewe

Við fórum á fætur um níu og fengum okkur morgunmat á hótelinu. Fórum svo upp á herbergi, pökkuðum niður og skráðum okkur svo út.

Ég og Gyða fórum ein út þennan dag. Tókum lestina yfir á næstu stöð við dýragarðinn (U Zoologischer Garten), gerðumst kræf og svindluðum þessa stuttu leið enda vorum við í lestinni í tvær mínútur í mesta lagi. Gengum að Kurfurstendamm. Gyða að fara að verslaÞar skyldu leiðir í smá stund, Gyða kíkti í búðir en ég rölti um og skoðaði mannlífið með myndavélina um hálsins. Mæltum okkur mót á bekk við kirkjuna.

Þegar þarna var komið við sögu var farsíminn minn rafmagnslaus og því vorum við sambandslaus á meðan. Ég var alveg peningalaus og komst svo að því, þegar ég ætlaði að fara í hraðbanka til að taka út nokkrar evrur svo ég gæti keypt mér eitthvað að drekka og jafnvel smakkað á kurrywurzt að ég man ekki pin númerið á kreditkortinu, það er í gemsanum.

Að einum og hálfum tíma liðnum, þegar Gyða var búin að versla dálítið, röltum við út Tauentzienstrasse og að Kadewe, en Ólafur Þór hafði mælt með því að við fengjum okkur að borða þar. Gyða vildi fyrst koma við á Starbucks sem var rétt hjá en ég taldi henni trú um að slíkir staðir væru á hverju götuhorni. Við sáum ekki annan slíkan stað það sem eftir var ferðar. Verslanirnar í Kadewe eru ekki beinlínis fyrir okkur, eitt það fyrsta sem við sáum var veski í Gucci búðinni sem kostaði tvö þúsund evrur.

Við tókum því lyftuna beint upp á efstu hæð og vorum þá komin í himnaríki. Sælkerabúðirnar og veitingastaðirnir á sjöttu hæð Kadewe minna okkur rækilega á að Ísland er enn í gíslingu ömurlegrar landbúnaðarstefnu. Kjöt, ostar og allskonar álegg í þvílíku úrvali að í samanburði mætti halda að hér á landi væri rekin haftastefna með landbúnaðarvörur.

Bakaðar kartöflurVið gengum þarna stuttan hring og sáum þá Steina og Habbí sem voru að borða. Heilsuðum upp á þau og röltum svo á milli veitingatorganna. Á sjöttu hæð eru nokkrir veitingastaðir þar sem gestir sitja fyrir framan eða í kringum kokkana sem elda matinn. Við fengum sæti á kartöflustað og fengum okkur bakaðar kartöflur með fyllingu.

Eftir mat röltum við um og keyptum nokkra súkkulaðimola. Ég mæli með því að þeir sem heimsækja Berlín kíki á sælkerahæðina í Kadewe.

Útvarpsturninn

Útvarpsturninn í BerlínÁkváðum að taka lestina á Alexanderplatz og gera aðra tilraun til að kíkja upp í útvarpsturninn. Tókum U2 (hvað annað) frá Wittenbergsplatz og keyptum lestarmiða í þetta skipti.

Þegar við gengum í anddyri útvarpsturnsins rákumst við aftur á Steina og Habbí. Berlín var greinilega of lítil borg fyrir okkur. Biðum ekki lengi í röðinni og komumst því upp í turninn. Þar sást vel til allra átta og gaman að sjá staðina sem við höfðum skoðað úr lofti. Það var a.m.k. hálftíma bið eftir því að komast á veitingastaðinn í turninum þannig að við ákváðum að fara frekar á kaffihús við torgið.

Þar fengum við slökuðum við á í sólinni. Reyndar var nokkuð hvasst en það gerði lítið til. Fengum okkur ís og bjór. Gyða og Habbí hlupu svo í C&A hinum megin við torgið meðan við strákarnir pöntuðum okkur annan bjór og gáfum tónlistarmanni klink.

Rútan átti að koma upp á hótel klukkan sex þannig að rétt rúmlega fimm héldum við til baka með lestinni. Rétt hjá hótelinu var sælkerabúð. Þar kom ég við og keypti helling af parmesan osti.

Heimferð

Rútan kom reyndar ekki klukkan sex og eins og okkur hafði verið sagt og því biðum við í anddyri hótelsins í u.þ.b. klukkutíma. Við tók svo ferð á Schönefeld flugvöllinn, um 45 mínútna akstur.

Innritun tók ekki langan tíma, en flugstöðin var ekki beinlínis spennandi. Áætluð brottför var 21:30 og við orðin nokkuð svöng. Helst langaði okkur í eitthvað bras, en gátum ekki verslað á Burger King þar sem þar var ekki tekið við kortum. Enginn hraðbanki var í flugstöðinni. Fórum því á bakarí, sem var eflaust betri kostur. Þar fengum við sæti og gátum slakað á. Að sjálfsögðu seinkaði fluginu svo um tæpan einn og hálfan tíma. Ég ákvað að kaupa mér viskí í fríhöfninni úti, keypti flösku af Laphroaig quarter cask. Er ekki enn búinn að smakka á því.

Flugferðin var tíðindalítil, ég náði að sofa ágætlega.

Tollurinn

Ég lenti svo í því að vera stoppaður í tollinum í fyrsta sinn. Eftir að hafa verslað eitthvað smotterí í fríhöfnni rötlum við eins og vanalega að tollurunum. Í þetta skipti skipaði ekkert sérstaklega vinalegur tollari okkur að setja töskurnar í gegnumlýsingartækið. Þar glápti annar álíka vinalegur gaur á skjá og sagði okkur svo að fara í hliðarherbergi. Meira fjörið. Þar var kona af erlendu bergi sem augljósa var ekki sátt við tollarna, sagði að hún væri alltaf stoppuð. Nefndi tölu sem var ansi há, um þrjátíu skipti minnir mig. Einhver pólskur verkamaður var gripinn við að smygla inn litlum poka með einhverjum þurrkuðu matvælum sýndist mér.

Eftir smá bið kom einn tollarinn sem spurði hvort við værum með eitthvað tollskylt í töskunum, tóbak eða áfengi. Ég sagði að svo væri ekki, fyrir utan viskíflöskuna. Þá spurði hann út í matvæli og ég játaði að ég væri með dálítið af parmesan í ferðatöskunni og sýndi honum eitt stykki. Hann skoðaði töskurnar ekki gaumgæfilega, rótaði ekki einu sinni í dótinu. Þvínæst spurði hann eitthvað út í myndavélatöskuna, spurði hvort vélin væri keypt á Íslandi og minntist á að gott væri að vera með kvittanir.

Þannig var það nú, meira var vesenið ekki og ferðafélagar okkar þurftu ekki að bíða nema svona tíu mínútur eftir okkur.

Ég greiddi Securitas ansi háa upphæð fyrir að geyma og þrífa bílinn. Svo ókum við bara heim í rólegheitunum. Skutluðum Jón og Mílenu í Kópavoginn og komum í Bakkaselið rétt rúmlega tvö um nóttina.

Nokkrar myndir hér.