Örvitinn

Stutt heimsókn á slysó

Dynkurinn var ansi þungur.

Ég rölti af stað upp til að athuga málið en þegar ég heyrði Ingu Maríu orga tók fór ég hæðirnar tvær á stökki. Hurðin af fataskápnum hennar hafði dottið af og lent á fætinum. Fóturinn var byrjaður að bólgna myndarlega fyrir ofan litlu tá og við ákváðum strax að rjúka á bráðadeild. Okkur datt ekki annað í hug en að hún væri brotin.

Ég ók eins og vitlaus maður þegar ég var ekki stopp á rauðu ljósi. Andskotans ljós á Bústaðaveginum. Gyða sat aftur í og hélt blautu köldu handklæði að fætinum. Inga María róaðist og hætti að orga.

Það var fullt í móttökunni þegar við komum. Okkur var hleypt inn á biðstofu barna þar sem líka var fullt, ég settist á barnakoll með Ingu Maríu í fanginu. Við lásum bók, skiptumst á að lesa kvæði.

Hin börnin í biðstofunni voru hress og kát, ég sá ekki hvað amaði að þeim og Inga María varð æ hressari. Ég fiktaði í tánum hennar og hún kvartaði ekki, kitlaði.

Eftir nokkra bið, þar sem ekkert gerðist á biðstofunni, vorum við ekki lengur hrædd um að hún væri brotin, bólgan hjaðnaði og hún var ekki mjög viðkvæm. Ákváðum að fara heim, fannst óþarfi að eyða tíma lækna og hjúkrunarfólks í þetta. Inga María gat stigið í fótinn og rölt um, fann dálítið fyrir en ekkert til að tala um. Kannski hefðum við beðið eftir lækni ef hún væri fyrsta barn!

Hún var hress og kát þegar hún fór að sofa rétt áðan, ánægð með nýju Hello Kitty rúmfötin. Kolla var vakandi þegar við komum heim, hafði áhyggjur af systur sinni.

fjölskyldan