Örvitinn

Bréf til alþingismanna - lítið um svör

Síðasta laugardag sendi Vantrú alþingismönnum tölvupóst vegna frumvarps til leik- og grunnskólalaga . Bréfið hefst svona:

Í breytingatillögu menntamálanefndar við frumvarp Menntamálaráðherra til leik- og grunnskólalaga er talað um að starfshættir skóla skuli meðal annars mótast af "kristinni arfleifð íslenskrar menningar". Tilgangur breytingatillögunnar er vafalaust sá að koma til móts við þá sem óttuðust um afdrif kristinfræðikennslu þegar felld var út klausa um "kristilegt siðgæði". #

Við höfum fengið eitt svar. Guðbjartur Hannesson þakkaði fyrir sendinguna. Aðrir hafa ekki haft fyrir því að svara. Ég er ekki að fara fram á greinargerð en mér finnst lágmarks kurteisi að kjörnir fulltrúar þjóðarinnar staðfesti móttöku bréfsins.

Ég hef áhyggjur af þessu máli. Eflaust finnst flestum það tittlingaskítur þó bakkað sé með kristilegar vísanir í grunnskólalögum. Í desember barðist menntamálaráðherrann kaþólski fyrir því að leikskóla- og grunnskólalög innihéldu ekki trúarlegar vísanir. Í dag leggur hún fram frumvarp sem er jafnvel verra en það sem fyrir var.

Getur einhver sagt mér hvað það þýðir að "starfshættir grunnskóla mótast af kristinni arfleifð íslenskrar menningar"? Hefur þetta einhverja raunverulega merkingu? Verða galdrabrennur, drekkingar, hommahatur og kynjamisrétti meðal þess sem móta mun starfshættina eða á fólk bara við ákveðna (jákvæða) hluta kristinnar arfleifðar íslenskrar menningar?

Í bréfi vantrúar til þingmanna segjum við einnig:

Við leggjum til að þessi breytingatillaga verði lögð til hliðar og þess í stað verði kveðið á um það í aðalnámskrá að í trúarbragðafræðslu skuli leggja sérstaka áherslu á kristni og þátt hennar í menningu Íslendinga frá upphafi. Miðað við rökstuðning nefndarinnar á breytingunni væri þetta líka mun rökréttari leið. #

Mér finnst ótrúlegt að hið ágæta frumvarp Þorgerðar Katrínar sé eyðilagt með þessum hætti á síðustu metrunum. Ég trúi því ekki að alþingismenn allrar þjóðarinnar, ekki bara ríkiskirkjunnar, laumi þessari kristnu vísun í lög um leik- og grunnskóla. Ég hélt það ætti að vera sátt um þetta mál.

Það er merkilegt að í nefndaráliti menntamálanefndar alþingis er sérstaklega tekið fram að bent hafi verið á að "meiri hluti innflytjenda til landsins er kristinnar trúa". Hvaða máli skiptir það? Felur þessi rökstuðningur það ekki í sér að ákvæðið sem nú er bætt í lögin mismuni fólki vegna trúarbragða og stangist þar með á við stjórnarskrá?

kristni pólitík