Ballet og fimleikar
Í morgun fór ég með Kollu í inntökupróf í Klassíska listdansskólanum þar sem hún hefur verið síðustu tvö ár. Stelpurnar voru í hóp inni í sal og gerðu æfingar með kennaranum. Á meðan biðu foreldrar frammi og fylgdust með. Ég veit satt að segja ekki hvernig þessi inntökupróf ganga fyrir sig, a.m.k. fengu stelpurnar enga niðurstöðu í morgun.
Á sama tíma fór Gyða með Ingu Maríu í Smáralind til að redda andlitsmálningu fyrir fimleikasýningu hjá Gerplu.
Þangað mættu svo allir klukkan tólf, sýningin byrjaði hálf eitt. Þetta var mjög skemmtileg sýning, fullt af flottum atriðum og krakkarnir skemmtu sér vel. Eins og vanalega var nær ekkert ljós og erfitt að taka myndir en ég reyndi mitt besta.
Í kvöld eru stelpurnar að fara að gista í ÍR heimilinu ásamt öðrum stelpum í sjöunda flokki. Gyða ætlar að vera með hópnum í nótt, ég mun hanga hér heima aleinn og láta mér leiðast. Get ekki einu sinni horft á lokaþætti Lost sem ég sótti í gær þar sem við horfum á þá saman hjónin.