Örvitinn

Jón Valur Jensson um kristilega arfleifð íslenskrar menningar

Í þessari umræðu hjá Baldri Kristjánssyni (sem reyndar tekur ekki þátt sjálfur) hefur Jón Valur Jensson loks svarað spurningu sem brunnið hefur á mörgum undanfarið. Ég spurði JVJ í tvígang um merkingu ákvæðis í leik- og grunnskólalögum sem segir til að skólastarf leik- og grunnskóla skuli byggja á kristinni arfleifð íslenskrar menningar:

Jón Valur mætti endilega fræða okkur um það hvaða merkingu þetta ákvæði hefur, þar sem það er í annarri grein leik- og grunnskólalaga og fjallar um starfssemi (en ekki námsefni) skólanna.

Svar Jóns Vals er fróðlegt og sýnir annars vegar á hvaða villigöngum þessi umræða hefur verið og hins vegar af hverju margir trúleysingjar og ýmsir fleiri vildu losna við kristnar tilvísanir úr leik- og grunnskólalögum. Skoðum svar Jóns Vals Jenssonar:

Ákvæðið í leik- og grunnskólalögum, að starf þeirra skuli m.a. byggjast á ,,kristinni arfleifð íslenskrar menningar,” felur t.d. í sér, að menn eiga ekki í krafti einhverrar útjöfnunar- og fjölmenningarhyggju og meints 'hlutleysis' að geta krafizt þess og fengið því framgengt:

  1. að börnum verði bannað að heyra kristnar vögguvísur og trúarsöngva á leikskólum;
  2. að bannað verði, að börn fái að teikna og föndra með trúarlegar myndir fyrir jól og páska í leikskólum og skólum;
  3. að bann verði lagt við því, að litlujólin verði haldin í skólum og leikskólum;
  4. að prestum verði bannað að stíga fæti inn í leikskóla og skóla til að bjóða upp á fræðslu um það sem býr að baki hátíðum kirkjunnar, skírninni, fermingunni o.fl.;
  5. að í umfjöllun um íslenzkar bókmenntir verði sneitt hjá því að gefa sýnishorn af og fjalla um trúarleg kvæði á miðöldum og síðar – að í yfirferð um ýmis höfuðskáld verði sömuleiðis sneitt hjá trúarljóðum þeirra, sem og trúarlegum stefjum, hugsun, arfi og bakgrunni í ljóðum þeirra (dæmi: hjá Jóni biskupi Arasyni, Hallgrími Péturssyni, Páli Vídalín, Jóni á Bægisá, Jónasi Hallgrímssyni, Kristjáni Fjallaskáldi, Matthíasi Jochumssyni, Davíð Stefánssyni, Stefáni frá Hvítadal og Snorra Hjartarsyni);
  6. að fyrir það verði tekið, að sögukennarar fái að fjalla um ávinning þjóðarinnar af kristnitökunni strax á 11. öld og áfram, t.d. með banninu við útburði barna og að hrinda gamalmennum og þrælum fram af björgum, með áherzlu kirkjunnar á ölmusugjörð og uppbyggingu spítala (m.a. á klaustrunum), með innleiðingu ritaldar og mikilla bókmennta hérlendis, mjög fyrir frumkvæði klerka og munka, með þýðingum og öðrum verkum sem ruddu brautina fyrir gullöld íslenzkra bókmennta á 13. öld, sem þar að auki átti sér að nokkru stað í klaustrunum;
  7. að látið verði hjá líða að fjalla í skólakerfinu um glæstan arf íslenzkrar kirkjulistar allt frá miðöldum, í kirkjubyggingum (eins og Hörður heitinn Ágústsson opnaði bezt augu okkar fyrir), listmunum og skreytingum;
  8. að bannað verði að fjalla ýtarlegar um kristna trú og kirkju í mannkynssögu 13.–17. aldar heldur en önnur trúarbrögð.

Byrjum á fyrirlitningunni í svari JVJ þegar hann vísar til "einhverrar útjöfnunar- og fjölmenningarhyggju og meints 'hlutleysis'". Fjölmenningarhyggja er reyndar ekki ástæða fyrir trúfrelsi eins og við höfum bent á á Vantrú, en hvað er eiginlega að því að skólar séu "hlutlausir"? Við erum ekki að tala um annað en að í skólum sé ekki verið að boða trú.

Ef við lítum yfir þessi átta atriði sem Jón Valur telur upp, þá skiptast þau í tvo flokka.

Fyrstu fjögur eru útúrsnúningar og ýkjur, afleiðingar lygaherferðar sem ríkiskirkjan og önnur kristin trúfélög stóðu fyrir í desember. Hver hefur minnst á kristnar vögguvísur (1) ? Trúarsöngvar eru af ýmsum meiði og að mínu mati eru margir þeirra óviðeigandi í skólastofnunum. "Jesús er besti vinur barnanna" á heima í sunnudagaskóla en ekki leikskóla. Ég sé ekkert að því að börn teikni trúarlegar myndir (2), svo lengi sem það er ekki á forsendum boðunar heldur kennslu. Umræðan um litlu jólin (3) er bull, útúrsnúningar sem byggja á misskilningi blaðamanns 24 stunda, misskilningi sem var ítrekað leiðréttur í desember. Varðandi heimsóknir presta (4), þá er nokkuð til í því. Ég geri athugasemdir við að prestar starfi í leik- og grunnskólum. Prestar eru ekki hlutlausir, þeir boða kristni og mæta í skólana á þeim forsendum. Kennarar í leik- og grunnskólum eru fullfærir um að sinna þeirra kennslu er JVJ nefnir í fjórða lið.

Næstu fjögur atriði í upptalningu JVJ sýna á hvaða villigötum þessi umræða hefur verið. Málið hefur aldrei snúist um kennslu í kristinfræði eða kennslu um kristna arfleifð íslenskrar menningar. Aftur á móti hafa ýmsir, þar með talið ríkiskirkjan og stjórnmálaarmur hennar, Framsóknarflokkurinn, viljað beina umræðunni inn á þær brautir. Það er einfaldara að gera andstæðingum sínum upp skoðanir heldur en að verja vondan málstað. Ég þarf ekki að fara ítarlega yfir atriði 5-8, þau byggja öll á ósannindum. Ekkert af þessu eru rök fyrir því að skólastarf skuli mótast af kristinni arfleifð íslenskrar menningar. Annar kafli leik- og grunnskólalaga fjallar ekki um námsefni.

Þetta á Jón Valur Jensson að vita ef hann hefur kynnt sér málið.

Svar hans sýnir vel af hverju trúleysingjar og margir aðrir vildu losna við kristilegar vísanir úr leik- og grunnskólalögum. Við vitum að slíkar vísanir verða notaðar til að réttlæta trúboð í leik- og grunnskólum. Sú hefur verið raunin hingað til og þannig verður það áfram. Þetta snýst um að troða prestum í skólana, að stunda kristniboð í opinberum leik- og grunnskólum. Færa sunnudagaskólann úr kirkjunni yfir í leik- og grunnskólana. Þetta vita allir sem hafa kynnt sér þessi mál síðustu ár.

Jón Valur bætir við í athugasemd:

Matthías lætur sem Vantrúar- og Siðmenntarmenn hafi ekki sótt að skólanum, en það hafa þeir einmitt gert: sótt þar að frelsi barna og foreldra til að fá að lifa sína kristnu trú.

Sókn trúleysingja í skólana felst semsagt í því að vilja hlutlausa skóla. Jón Valur gerir sér ekki grein fyrir því að raunveruleg sókn okkar myndi felast í því að við færum fram á að kristin trú og önnur hindurvitni væru gagnrýnd í skólakerfinu eins og eðlilegt væri (ég fjallaði meðal annars um þetta í greininni Innræting þagnarinnar), en við förum ekki fram á það því við berum of mikla virðingu fyrir trú- og skoðanafrelsi. Trúleysingjar eru í raun alltof umburðarlyndir, sérstaklega ef borið er saman við kristna einstaklinga eins og Jón Val Jensson eða Karl Sigurbjörnsson.

ps. Jón Valur Jensson ritskoðar mig á moggabloggsíðu sinni en er velkomið að tjá sig hér.

kristni
Athugasemdir

Óli Gneisti - 01/06/08 18:53 #

Ég er hissa að Jón Valur skuli ekki bara vera fokvondur yfir þessari lagaklausu þar sem Bjarni Harðarson hefur lýst því yfir að þetta sé í raun gert til að berjast gegn öfgatrú eins og JVJ stendur fyrir.

Mummi - 01/06/08 22:33 #

Það er vegna þess að Jón Valur er pínu klókur í bilun sinni. Hann veit sem er, að fái börn kristilega næringu þegar þau eru lítil eru meiri líkur að á þau verði að trúarnötturum eins og hann sjálfur þegar þau verða stór. Hvert guðsorð til barns, jafnvel mælt úr munni prests sem fordæmir ekki homma (!) er betra en ekkert guðsorð. Þú býrð ekki til trúarnöttara úr trú- og guðlausu barni (ok það er hægt. Það er bara erfiðara).

Hitt er svo annað að þessi hugmynd hans Bjarna stenst enga skoðun - en það er efni í aðra umræðu.