Örvitinn

Fyrirsjáanlegt Morgunblað

Ég ætlaði að blogga um þetta í gær en gleymdi því. Ég var semsagt sannfærður um að Morgunblaðið myndi birta úrdrátt úr bloggfærslu Bjarna Harðarsonar og að sjálfsögðu var það raunin. Hann fær mest pláss bloggara í blaðinu í dag.

Mér finnst þetta dálítið þreytandi. Í athugasemdum við bloggfærslu Bjarna er honum svarað en lesendur Morgunblaðsins munu aldrei sjá það. Það eina sem þeir sjá eru dylgjur og ósannindi þingmannsins. Ég man ekki til þess að Morgunblaðið hafi vitnað í annað en mogglinga undanfarið, þannig að það er afar ósennilegt að þeir vitni í bloggfærslu mína um óheiðarleika Bjarna.

Af hverju var ég sannfærður um að Morgunblaðið myndi birta þetta? Jú, vegna þess að þetta er svo fyrirsjáanlegt. Þetta gerist alltaf.

Ég vil hvetja lesendur mína til að skoða bloggfærslu Bjarna sem ég vísa á í síðustu færslu. Umræðurnar eru dálítið merkilegar.

Ekki misskilja mig, þó ég gagnrýni Morgunblaðið ansi oft í þessu bloggi er mér ekkert illa við það blað. Ég er áskrifandi (fékk svo gott tilboð) og þekki nokkra starfsmenn blaðsins. Ég gagnrýni af væntumhyggju (æi, það er kannski orðum ofaukið).

fjölmiðlar