Örvitinn

Engisprettur ráðast á Bjarna Harðarson

Eitt af því sem við í Vantrú þurfum að glíma við er að við eigum afskaplega erfitt með að svara fyrir okkur. Ef fólk setur fram rangfærslur um félagið eða málflutning okkar reynum við að svara - en þá koma nær alltaf upp ásakanir um að það þýði ekkert að ræða við okkur - að við kaffærum fólk og kæfum athugasemdaþráðinn.

Í þessari umræðu hjá Bjarna Harðarsyni eru nú 43 athugasemdir, þar af þrjár stuttar frá tveimur vantrúarsinnum, mér og Óla Gneista. Í umræðunni þar á undan eru 107 athugasemdir, þar af 27 frá fimm eða sex vantrúarinnum. Þess má geta að Jón Valur Jensson mætti á staðinn og fór með þá umræðu út í vitleysu.

Auðvitað svara fleiri trúleysingjar, sumir með offorsi en aðrir í rólegheitum. Fólk tengir þá eflaust alla við Vantrú. Athugasemdir vantrúarseggja eru ekki merktar annars staðar en á vantrúarvefnum.

Þrátt fyrir þetta hlutfall eru ummæli í báðum umræðum um að við kæfum allt og alla. Þar eru þeir mættir Atli Harðarson, bróðir Bjarna og sonur Atla, Máni Atlason.

Efnislega bæta þeir litlu við umræðuna, heimspekingurinn Atli Harðarson hefur ekkert til málanna að leggja annað en að þarna séu nú meiri lætin í gangi. Máni tekur þó undir ríkiskirkjudýrkun frænda síns og telur stjórnarskrá réttlæta trúboð í skólum.

Hvernig eigum við ofstækisfullu umburðarlyndisfasistarnir eiginlega að svara fyrir okkur? Eigum við bara að sætta okkur við lygar og árásir Bjarna Harðarsonar? Erum við að sanna ofstækisumburðarlyndisfasisma okkar með því að andmæla slíkum ásökunum?

pólitík
Athugasemdir

Bragi - 09/06/08 13:10 #

Já er það ekki bara. Ég dáist nú samt að þolinmæði ykkar og langlundargeði í þrotlausri baráttu fyrir einföldum mannréttindum. En það er alveg deginum ljósara Matthías að þú ert Satan endurfæddur sem ofstækisumburðarlyndisfasisti! Ekkert getur sannfært mig um annað.

... fæddist Satan nokkuð, datt hann ekki bara?

Kristján Atli - 10/06/08 19:11 #

Ég skil vel hvað þú átt bágt, meira en flestir jafnvel því við erum í góðmennum hópi þeirra sem þekkja það að vera bæði trúleysingjar og Liverpool-menn, en báðir hópar virðast verða fyrir sams konar rökvilluásökunum. Maður má aldrei svara fyrir sig án þess að viðkomandi hlaupi til mömmu klagi. Eða hrósi sigri fyrir að hafa náð að æsa mann upp, sem er einhver sá vitlausasti sigur sem hægt er að vinna.

Mér nægir að vera Liverpool-maður á netinu. Hef ekki orku í bæði, enda tekur það nógu mikið á að rökræða við United-menn, þótt ég taki ekki slaginn og ofsæki greyið heittrúuðu fórnarlömbin líka.