Örvitinn

Svarthöfðaprédikun

Þórhallur Heimisson prédikar um Svarthöfða. Hvað get ég sagt? Er Þórhallur klikk?

Hér eru nokkrar tilvitnanir:

Hingað til hefur trúað fólk getað gengið til kirkju hér á landi án þess að að því sé vegið með ógnunum eða hæðni fyrir trú sína.

Tja, hingað til hefur fólk getað sent börn sín í leikskóla án þess að vegið sé að því fyrir trú sína. Ha, Þórhallur! Svarthöfði "ógnaði" ekki nokkrum manni. Hæðnin fólst í veru hans á svæðinu, engu öðru. Þetta snerist ekki um trú, þetta snerist um prestagöngu.

Þegar gangan var farin hjá hélt sá grímuklæddi í humátt á eftir. Við dyr Dómkirkjunnar var honum aftur á móti endanlega snúið frá.

Nei, hann ætlaði sér aldrei að fara inn, hann stoppaði einfaldlega. Reyndar eftir að spunameistari ríkiskirkjunnar plantaði sér fyrir framan hann, en hún hefur sagt að það hafi bara verið til að taka mynd (hvar er myndin Adda Steina?). Þórhallur gerir gerir Öddu Steinu að lygara í prédikun sinni! Hvort var hún að stöðva hann eins og Þórhallur segir eða taka mynd eins og hún segir?

Svo einkennilega vill til að ýmsir þeir sem telja sig vantrúaða kjósa að vega úr launsátri að kirkjunni og öðrum trúarbrögðum, og skríða síðan í felur í skjóli nafnleysis

Sæll Þórhallur, ég heiti Matthías Ásgeirsson og er formaður Vantrúar. Þú hefur örugglega heyrt minnst á mig. Langflestir vantrúarsinnar skrifa undir fullu nafni og eiga þar með á hættu að verða fyrir aðkasti opinberlega, meðal annars frá prestum eins og dæmi eru um.

Þó tilburðir Vantrúarmannsin í gerfi Svarthöfða hafi verið hlægilegir, þá réðst hann að friðhelgi og trú yfir 90% landsmanna þegar hann hæddist að krossinum og brá fyrir hann sverði sínu.

Þórhallur, ekki ljúga. Þú veist vel að fullyrðingar um að 90% landsmanna séu kristnir eru einfaldlega ósannar. Af hverju eru prestar alltaf að ljúga? "Réðst að friðhelgi"! Er manninum alvara?

Og geta menn treyst því að næst verði ekki vegið að prestum og kirkjufólki með alvarlegri hætti?

Uh, Svarthöfðagjörningurinn var sárasaklaus. Hvað heldur þú að við gerum, troðum okkur í barnastarf kirkjunnar eins og þið troðið ykkur í leik- og grunnskólana. Láttu ekki svona, við erum ekki siðlaus þó þið séuð það.

Er á það hættandi að senda börnin ein í sunnudagaskólann næsta haust?

Verður setið fyrir þeim?

Er Þórhallur ekki að grínast? Þetta finnst mér orðið ansi rætið hjá honum. Nei Þórhallur, við erum ekki prestar. Við látum börnin ykkar í friði.

Og við hljótum öll að spyrja okkur eftir uppákomu hins grímuklædda fulltrúa Vantrúar við upphaf prestastefnu hvort það sé þannig þjóðfélag sem við viljum, þar sem öfgar og fordómar einstefnumanna meina fólki að lifa eðlilegu lífi og iðka trú sína – eða trúleysi - í friði?

Ég er kjaftstopp. Í alvöru. Vá.

aðdáendur kristni
Athugasemdir

Jón Magnús - 16/06/08 16:28 #

Maðurinn er sturlaður... er hann ekki búinn að sjá myndbandið á netinu og þar sést að fullyrðingar hans um dólgslæti Svarthöfða eru greinilega ímyndun (sturlun) hans.

Hann fer um víðan völl - útaf einum Svarthöfða djók þá ætlum allt í einu að fara að herja á börn. Rétt hjá þér Matti, við erum ekki siðlaus eins og prestar.

Arnold Björnsson - 16/06/08 17:48 #

Illur á sér ills von. Það hvarlar ekki að honum annað en að allir séu eins og þjóðkirkjuprestar og sæki í að innræta börnum sínar lífsskoðanir. Því fer fjarri að svo sé. Einungis ríkiskirkjan stendur í slíku. En Þórhalli líður greinilega illa enda með slæma samvisku.

Kristján Atli - 16/06/08 17:57 #

Þetta er bloggfærsla ársins, hands down. Maðurinn fer einfaldlega á kostum í að gera sér upp meiðsli. Myndi jafnvel ganga svo langt að segja að hér sé kominn Didier Drogba bloggheima. :-)

Í fyrsta lagi, þá var bölvítans trúleysinginn klárlega að "vega að friðhelgi" hinna trúuðu. Með því að ganga eftir sömu götu og þeir á sama tíma, á stað sem er opinn almenningi. Auðvitað átti hann að virða friðhelgi þeirra og vera heima hjá sér á þeim tíma.

Svo segir hann náttúrulega satt með ykkur nafnleysingjana. Ég man klárlega eftir nokkrum viðtölum á Bylgjunni um daginn þar sem þú, Matti, komst fram undir nafninu Djákni McTrúlaus og heimtaðir að rödd þinni yrði breytt svo engin yrðu borin kennslin.

Sannasta fullyrðingin er samt sú þegar hann lýsir því yfir að hann sé hræddur um að börnin hans geti orðið fyrir því að spjalla við trúleysingja, séu þau skilin eftir foreldralaus í sunnudagaskólanum. Hvað varðar að fá að kenna á eigin meðali er þetta ansi vel af sér vikið. Ég vona að hann sofi illa í nótt af ótta við trúleysingja sem mæta í sunnudagaskólann og flytja kristnum börnum heilagan sannleika staðreyndir. Þá veit hann kannski hvernig trúlausum líður með að senda börnin sín í leik- og grunnskóla.

Eins og ég segi, þá þykist maðurinn stórslasaður eftir ímyndaðar árásir ykkar Vantrúarmanna undanfarin misseri. Sannkallaður BloggDrogba, hann Þórhallur!

Matti - 16/06/08 18:16 #

Drogbalíkingin smellpassar, þetta er leikaraskapur.

N.b. þetta er ekki bara bloggfærsla, þetta er prédikun, flutt fyrir fullum sal af kirkjugestum í gær.

Kristján Atli - 16/06/08 19:08 #

Prédikun? Ég er greinilega ólæs því það fór alveg framhjá mér. Kannski átti ég bara svona erfitt með að trúa því þegar ég las þetta fyrst. :)

Alveg finnst mér frekar fyndin tilhugsun að sjá fyrir mér það fólk sem hefur þurft að sitja undir þessari prédikun. Ætli fólk gangi út úr kirkjunni eftir að hafa hlustað á prestinn fjalla um Stjörnustríðsmyndirnar og einn meinlausan prakkara á götum Reykjavíkurborgar sem ótvíræða sönnun þess að djöfullinn leynist á hverju götuhorni?

Þetta lið fólk talar og talar um hið góða en eyðir svo sólríkum sunnudögum í að láta presta hræða úr sér líftóruna með ýktum nútímadæmisögum, á meðan við hin förum í sund og annars konar útiveru og/eða njótum lífsins í faðmi þeirra sem okkur þykir vænst um? Hvar er nú ljósið? Eða er ég að fella þetta lið fólk ómaklega undir sama hattinn?

Matti - 16/06/08 19:11 #

Það kæmi mér verulega á óvart ef það voru fleiri en tíu (fyrir utan prest, starfsfólk og kór) viðstaddir þegar þessi prédikun var flutt. En það eru náttúrulega bara mínir fordómar :-)

Teitur Atlason - 16/06/08 21:14 #

Og geta menn treyst því að næst verði ekki vegið að prestum og kirkjufólki með alvarlegri hætti?

Þetta er kostulegt! hann virðist óttast árásir frá trúlausu hryðjuverkafólki. Svarthöfði hefur sannarlega hrist upp í Þórhalli. Sennilega hefur grínið virkað svona vel á hann og Þórhallur séð hversu fáránleg uppákoma þessi prestaskrúðganga er.

Fólk bregst oft heiftarlega við sannleikanum.