Örvitinn

Við árbakkann á Blönduósi

Í stað þess að stoppa á vegasjoppu og fá okkur sveittan hamborgara á föstudagskvöldi fengum við okkur kvöldmat á veitingastaðnum Við árbakkann á Blönduósi. Ég fékk mér Sesamlax með kryddjurtakartöflumús (2.300,-) . Gyða og Kolla fengu sér Fiskisúpu (1.200,-) og Inga María fékk kjúklinganagga og franskar (980,-).

Maturinn var fínn, laxinn var góður en ég hefði viljað finna meira fyrir kryddjurtunum í kartöflumúsinni. Stelpurnar létu vel af fiskisúpunni og naggar eru bara naggar. Inga María er ekki mikill matgæðingur.

Þetta er svo miklu huggulegra en bensínstöðvarsjoppan og brasið þar að það er ekki einu sinni fyndið. Við hjónin erum búin að ákveða að stoppa alltaf frekar á veitingastöðum heldur en vegasjoppum. Jafnvel þó það sé eitthvað örlítið dýrara, þá munar ekki svo miklu í verði en afskaplega miklu í gæðum. Við stoppuðum stutt, þurftum ekki að bíða lengi eftir matnum en náðum samt að slaka örlítið á áður en við ókum síðasta áfangann að Sauðárkróki.

veitingahús
Athugasemdir

Valdís - 30/06/08 17:25 #

Mér finnst þessi staður frábær til að stoppa um miðjan dag, þetta er eini staðurinn á leiðinni Ak-Rvk þar sem hægt er að fá almennilegan cappuchino.

Mummi - 30/06/08 21:00 #

Við hjónin stoppum alltaf þarna á leiðinni til og frá Reykjavík (frá og til Akureyrar). Það er einmitt ekki fyndið að bera þetta saman við eitthvað sveitt og ofur-kryddað-til-að-fela-skítabragðið úr einhverri vegasjoppunni.

Birgir Baldursson - 01/07/08 14:36 #

Það sem Ísland hefur alltaf vantað er þjóðvegasjoppukeðja í stíl við þær bestu vestanhafs, veitingastaði meðfram hringveginum þar sem meistarakokkametnaður og huggulegt andrúmsloft mætir gestum.

Þarna er kannski upplagt bissnisstækifæri fyrir einhvern dugandi (semsagt ekki mig).