Örvitinn

Blind Faith eftir Ben Elton

Ég geri ekki mikið af því að lesa skáldsögur, er meira í fræðibókum (eða sjoppubókmenntum eins og guðfræðingur kallaði það). Las Blind Faith í nokkrum áföngum í gær. Hér eru punktar sem ég tók saman, eflaust skemmir þetta lesturinn fyrir þeim sem hafa hugsað sér að lesa bókina.

Bókin Blind Faith er magnaður ádeiluhrærigrautur, minnir á kvikmyndina Idiocracy á sterum. Í þessari framtíðarsýn hefur trúleysi verið bannað, sjálfstæð hugsun er tabú og einkalíf er ólöglegt. Fólk má ekkert fela, allt á að vera opinbert.

Snemma í bókinni kemur fram að tilfinningar eru heilagar, þær má ekki særa. Sérstaklega ekki trúartilfinningar. Þannig getur fólk komið sér í vandræði með því að spyrja út í eitthvað sem aðrir halda fram. Sjálbirgisháttur er normið: „ég hef talað við Gvuð mikið undanfarið, hann hefur verið að segja mér hvað ég er falleg“.

Mannleg samskipti eru yfirborðskennd, hávaði og stöðugt áreiti gerir það að verkum að fólk hrópar hvert á annað. Markaðsahagkerfið hefur náð hámarki, allur matur er ofursætur því þannig vill fólkið hafa það. Þar sem gagnrýnin hugsun er tabú eru hindurvitni fyrirferðamikil, hvort sem um er að ræða trúarbrögð, skottulækningar eða sjálfshjálparbull. Bólusetningar eru bannaðar og barnadauði rýkur upp. Þar eru húmanistar leynileg andspyrnuhreyfing, bólusetja á laun, hittast og lesa bækur – alvöru bækur.

Barnadauði veldur trúarþörf, trúaryfirvöld veita einföld svör. Gvuð gerði það. Gvuð, Díana og ástin.

Þetta er nútímaútgáfa af 1984 þar sem trúarbrögð og yfirvöld eru eitt. Þar sem Facebook, Youtube og bloggsíður eru verkfærin sem allir nota til að fylgjast með öllum. Ef allir opinbera sig á netinu, verður afbrigðilegt að opinbera sig ekki. Prívatlíf verður pervertismi, ólöglegt að halda einhverju fyrir sig. Nekt er hógværð, klám er norm. Lýðræði verður skrílræði, lög sett á leikvöngum – lýðurinn ákveður að héðan í frá skuli allir vera frægir. Hræðslan heldur öllu saman, ekkert er verra en að vera sakaður um pervertisma en samt er klámvæðingin komin úr böndum. Barnaníðingar eru ófreskjur en börn eru klámgerð.

Gleði er fölsk og yfirborðskennd. Fólk mætir í partí til að taka myndir af sér og öðrum í partíinu.

„It was almost as if the party had been held simply in order that people might record themselves attending it“

Hjónabönd er góð, það segir sig sjálft að því fleiri hjónabönd sem fólk fór í, því betra. Jesús blessaði giftingar, ekki hjónabönd. Þess vegna átti fólk að giftast sem oftast. Samt elskar múgurinn brennur meira en brúðkaup. Í bókinni er daðrað við tómhyggju en hún endar þó með vonarneista.

Er þetta elítismi hjá Elton eða er hann bara að gera grín að okkur öllum? Ég hló oft, stundum fannst mér ég vera að hlægja að sjálfum mér.

bækur
Athugasemdir

Kristján Atli - 08/07/08 21:22 #

Ég las færsluna ekki, enda illa við að láta spilla bókum fyrir mér, en vildi bara segja að upphafið á þessari færslu (ókei, og síðasta setningin, las hana líka) varð til þess að ég greip þessa bók - sem hefur legið ólesin í hillu heima í nokkrar vikur - og ætla að ráðast á hana á næstu dögum. Kominn tími til, Elton er alltaf góður.

kristín ketilsdóttir - 09/07/08 17:14 #

las færsluna ekki heldur, en keypti bókina um leið á audible. færslan bar augljóslega árangur

Matti - 09/07/08 17:17 #

Úff, nú verð ég stressaður yfir því hvort ykkur líkar bókin eða ekki :-)

kristín ketilsdóttir - 16/07/08 18:23 #

loksins gat ég lesið alla færsluna haha. las 1984 á undan og svo blind faith ca viku eftir. skemmtilegra að geta borið þær saman. þær voru báðar skemmtilegar, þó svo þessi framtíðarsýn höfundanna sé vægast sagt mjög óhugnarleg