Örvitinn

Neytendahornið: Gas í Borgarfirði og dekkjavesen

Í gærkvöldi hafði ég rétt náð að grilla hamborgara og pylsur þegar gaskúturinn tæmdist. Ég greip í tómt þegar ég sótti hinn kútinn, hann var líka galtómur. Ég held að einhver hafi verið að misskilja hugmyndina með að hafa tvo gaskúta í bústaðnum.

Í morgun hringdi ég í bensínstöðvarnar í nágrenninu til að athuga verðið á gasfyllingu, annars vegar fyrir 9kg stálkút og hins vegar 10kg plastkút. Nú þarf maður að vera virkur neytandi svo Dr. Gunni verði ekki reiður. Fyrirfram hafði ég ályktað að gasið yrði dýrast í Baulu sem er næst bústaðnum og fjærst mannabyggð. Svo reyndist ekki vera, Olís í Borgarnesi var með langhæsta verðið.

Fylling á gaskúta í Borgarfirði

9kg10kgSamtals
Olís Borgarnesi3990.-4590.-8580.-
Skeljungur Borgarnesi3580.-3960.-7540.-
Hyrnan Borgarnesi3570.-36507220.-
Baulan3595.-39907585.-

Það er ljóst að það borgar sig ekki að kaupa gasið í Olís í Borgarnesi. Ég fór í Bauluna þar sem verðmunur var minni en eldsneytiskostnaður við að fara í Borgarnes.

Sá sparnaður varð reyndar að engu því þegar ég kom úr Baulu eftir að hafa gert upp uppgötvaði ég að annað framdekkið var sprungið. Ég þurti því að skella varadekkinu undir og bregða mér í Borgarnes til að láta gera við dekkið. Því var reddað á hjólbarðaverkstæðinu á skömmum tíma og fyrir lítinn pening, eða 2.300-. Mér hefði ekki brugðið þó ég hefði þurft að borga tvöfalt hærri upphæð. Annars var lán í óláni að ég var staddur við Baulu, því felgulykillinn í skottinu passaði ekki á boltana sem ég keypti um daginn. Ég fjárfesti því í nýjum felgulykli í Baulu.

Ég vil því hrósa Baulu fyrir að vera með sanngjarnt verð á gasinu og góða þjónustu. Maturinn er reyndar dálítið sveittur en það er önnur umræða, það er fínt að skella sér í Baulu til að horfa á enska boltann.

Hjólbarðaverkstæðið í Borgarnesi fær einnig hrós fyrir góða þjónstu og sanngjarnt verð.

hrós
Athugasemdir

Jón Magnús - 10/07/08 01:16 #

Ég lenti í þessu sama í síðustu viku. Fékk "nagla" í dekkið (steypustyrktarjárn) og það þurfti að gera við það. Þurfti að fá slöngu líka þar sem kannturinn á dekkinu skemmdist og þetta voru heilar 4162kr á Gúmmívinnustofunni í Skipholtinu.

Þess má geta að slangan kostaði 2000 kall svo viðgerðin hefði kostað ~2100 ef ég hefði ekki þurft hana. Svo þetta er uþb svipað.

Sirrý - 10/07/08 23:15 #

Svo er Bensínið líka ódýrt ja alla vega hjá held ég Orkunni og einnig á Hreiðarvatnsskála Munaði 4 krónum á líterinn.