Örvitinn

Vond goslokaprédikun

Jæja, í þetta skipti fer ég ekki mannavillt en ekki er prédikunin skárri þó um réttan prest sé að ræða.

Ólafur Jóhann er einn þeirra presta sem telja sig eiga erindi í leikskóla með kristniboð. Um síðustu helgi prédikaði Ólafur í tilefni goslokahátíðar. Hann setti prédikunina á netið og hér fyrir neðan er smá bútur sem ég vil vekja athygli ykkar á. Þetta er ekki langur texti, en hann er merki um svo lélega hugsun að ég veit varla hvað ég á að segja. Ég trúi því varla að fólk geti klárað fimm ára háskólanám en samt skrifað svona rugl - hvað þá að söfnuður sitji undir þessari prédikun og andmæli ekki.

Sumir vilja þó frekar þakka tilviljunum heldur en góðum Guði hversu örlögin léku Eyjamenn blítt og að allt fór eins og það fór. Telja það tilviljun að flotinn hafi allur verið í höfn og í stakk búinn til ferja fólk yfir, að það hafi verið tilviljun að vindátt hafi verið af vestri en ekki austri, það hafi verið tilviljun að jarðsprungan hafi ekki opnast nokkur hundruð metrum vestar en raunin varð.

Um allar aldir hafa raunar þær raddir alltaf ómað að útskýra þurfi með rökfræði og raunvísindum hvort og hvernig íhlutun Guðs og máttur hefur birst mönnum í gegnum aldirnar. Skemmst er að minnast þess að fyrir tveimur árum kom bandarískur haffræðiprófessor með þá tilgátu að frásögn guðspjallanna af því þegar Jesús gekk á vatninu væri ekki svo sérstæð, því allt eins væri líklegt að vatnið hefði verið ísilagt á þeim tíma. Ekki hafði þó haffræðiprófessorinn tilgátu um hvernig lærisveinarnir gátu róið á litlum árabát í gegnum þennan mannhelda ís eða hvers vegna Pétur tók að sökkva þegar ótti kom að honum, það er vart sannfærandi skýring að ísinn hafi gefið sig undan honum.

Í gegnum allar aldir hefur þetta verið tilhneiging ákveðinna hópa, til þess að styrkja efa sinn í trúnni, og reyna að finna einhvern raunvísindalegan grundvöll til þess að byggja skoðun sína á. Og í þessu samhengi hafa margir þá trú að heimurinn hafi orðið fyrir tilviljun, lífið sjálft, já ég og þú!

Í huga kristins manns er lífið miklu stærra og dýrmætara en einhver einstök tilviljun. Í kristinni trú er sú sannfæring lifandi að lífið er Guðs gjöf sem okkur ber að fara vel með og varðveita. Lífið er ekki síður dýrmætt í augum lífgjafans, það finnum hvað sterkast þegar hann kemur með sína sterku hendi og bjargar og blessar eins og í þeim aðstæðum sem sköpuðust allan þann tíma er gaus í Heimaey.

Hvað er hægt að segja?

Finnst ykkur gvuðinn hans Ólafs Jóhanns ekki vera undarlegur? Hann sér til þess að vindáttin sé rétt, bátar séu í höfn og að sprungan opnist hæfilega langt í burtu. Af hverju kom hann ekki bara í veg fyrir eldgosið? Gvuðinn hans Ólafs skiptir sér greinilega að málefnum manna - af hverju kemur hann ekki í veg fyrir aðrar hörmungar? Elskar hann Vestmannaeyingja meira en annað fólk?

Það er svo gaman að sjá að leikskólapresturinn er enn á fimm ára stiginu í pælingum varðandi uppruna lífsins. Hann á eflaust frekar erindi í leikskóla sem nemandi en kennari. Átta ára dóttir mín sýnir mun betri takta í heimspekinni en presturinn gerir hér.

Vandamál klerka er að þeir fá litla gagnrýni og taka ekki mark á þeirri sem þeir þó fá. T.d. er aldrei opið fyrir athugasemdir við prédikanir á trú.is, það á einfaldlega ekki að ræða þær. Prédikanir þola ekki gagnrýni. Prestarnir flytja prédikanir sem þessar en enginn andmælir nema við "ofstækisfulla öfgafólkið" sem bendum á að Ólafur Jóhann er ekki í neinum fötum er einfaldur kjáni. Kjáni sem ríkið (það er ég) borgar fullt af pening fyrir að semja svona prédikanir.

kristni
Athugasemdir

hildigunnur - 15/07/08 08:53 #

Hvers vegna ætli guðinn skipti sér ekki af, þar sem eru virkilegir harmleikir, slys og mannskæðar náttúruhamfarir? Ætli Vestmannaeyingar séu þá Guðs útvalda þjóð, eftir allt saman?

Björn Friðgeir - 15/07/08 10:13 #

Það væri athyglisvert að vita hvaða skoðun pilturinn hefur á aðkomu guðs á Flateyri og Súðavík.