Örvitinn

Sægreifinn

Við kíktum á Sægreifann niðri við Reykjavíkurhöfn í síðbúinn hádegismat í dag. Höfum heyrt vel af þessu látið og ákváðum að prófa humarsúpuna frægu. Pöntuðum súpu handa öllum og auk þess þrjú grillspjót, með humar, hörpuskel og hrefnu.

GrillspjótinÉg varð fyrir dálitlum vonbrigðum með súpuna. Þegar hún var borin á borð varaði starfsmaður okkur við að hún væri heit, en hún var það alls ekki. Það gerði það að verkum að humarinn var of lítið eldaður. Það er sjaldgæft að mér finnist humar of lítið eldaður en þessi var nær hrár. Stelpurnar kvörtuðu þó ekkert. Ég held að súpan hafi einfaldlega verið of köld þegar humri var bætt út í. Að öðru leyti var súpan ágæt, ekkert slæm en heldur ekki uppfylla þær væntingar sem ég gerði.

Spjótin voru góð, sérstaklega humarinn og hörpuskelin. Ég hef smakkað betri hrefnu, mér fannst of mikið hvalkjötsbragð af henni!

Fjórir skammtar af súpu, þrjú grillspjót og tvær gosflöskur kostuðu rúmar átta þúsund krónur.

veitingahús
Athugasemdir

Einar Örn - 17/07/08 19:13 #

Þetta er að mínu mati rosalega of-hype-aður staður. Ég fór þarna með nokkrum vinum mínum og varð fyrir verulegum vonbrigðum.

Minnir að við höfum borgað nálægt þúsund kalli fyrir súpuna og fengum sirka hálfan humar í henni. Súpan var einsog þú segir ágæt, en ekkert meira en það. Ég hef fengið miklu betri humarsúpur á öðrum veitingastöðum og heima hjá vinum mínum.

Kristín í París - 17/07/08 19:30 #

Ég á mjög góða minningu af minni ferð, hvílíkt ljúffeng súpa. En það var fyrir einhverju margt löngu síðan, leitt ef staðurinn er að tapa sér í hæpinu.

hildigunnur - 17/07/08 22:12 #

ég hef alveg öfuga sögu að segja, frá í fyrrasumar, súpan var snilld, ég sá eftir að hafa ekki pantað mér hana, fiskispjótin alveg allt í lagi en ekkert betri en þau sem ég geri á grillinu heima...

Bragi - 19/07/08 00:04 #

Matti, þegar inniboltinn byrjar í haust þá skal ég bjóða ykkur strákunum í humarsúpu sem er orðin fræg meðal stórs hóps í kringum mig. Tekur mig eitthvað yfir tvo sólarhringa að sjóða niður soð og fleira. Algjört lostæti. Líttu á þetta sem heimboð.

Matti - 19/07/08 00:36 #

Glæsilegt. Ég rukka þig um leið og boltinn hefst.