Örvitinn

Vin í Kringlunni

Ég sá skiltið þegar ég var að skrá stelpurnar inn í geðveikina í Ævintýralandi: Borgarbókasafnið. Meðan dætur mínar hömuðust í fuglabarnabjargi sat ég á bókasafni og gluggaði í blöð og bækur. Fletti DV (allt annað fæ ég heim) og renndi í gegnum tvær gamlar ljósmyndabækur.

Fengum okkur snarl og röltum smá hring. Ég kíkti í BT til að skoða hvað til væri af prenturum (ekkert A3) og PSP tölvuleikjum. Það var tilboð á PSP leikjunum, flestir titlar á 3.999,- í stað 5.999,- en þegar ég skoðaði málið nánar sá ég að undir verðmiðum þar sem strikað hafði verið yfir eldra verð var annar verðmiði með gamla verðinu, 4.999,-. Af hverju gera verslanir þetta? Ótal sambærileg dæmi er að finna á okursíðunni hans Dr. Gunna.

Ég skutlaði stelpunum á fótboltaæfingu í rigningunni og fór heim. Þær hafa gott af því að leika sér úti. Ég hefði það svosem líka. Lofaði þeim að við færum í sund á morgun.

dagbók