Örvitinn

Mér leiðist að rífast við Tal

Í alvöru talað, mér finnst óskaplega leiðinlegt að rífast. Sérstaklega við þjónustufulltrúa sem enga sök bera á málavöxtum. Var að þrefa fyrir hönd foreldra minna við þjónustufulltrúa hjá Tal. Foreldrar mínir eru að fá rukkun fyrir umframnotkun á nettengingu þar sem þau voru með samning við Hive sem rann svo inn í Tal. Svo gæti farið að Tal missi viðskiptavin (og þannig árlegar tekjur sem eru miklu hærri en þessi umframrukkun) vegna ósanngjarna (að mínu hógværa mati) viðskiptahátta.

Mér fáránlegt að rukka eftir svo úreltum samning þegar viðskiptavinum Tal bjóðast engin viðskipti á svo lélegum kjörum (4GB erlent niðurhal). Einnig finnst mér undarlegt að þessi rukkun fyrir umframnotkun gerist strax í kjölfar samruna (í fyrra var einn mánuður með umframnotkun) en ekkert áður. Að lokum finnst mér notkunin sem rukkað er fyrir grunsamlega mikil, það stenst ekki að notkun á heimili foreldra minna sé töluvert meiri en á mínu heimili.

Mér finnst alltaf jafn merkilegt hvað fyrirtæki eru tilbúin að eyða miklu peningum til að ná í viðskiptavini en litlum til að halda þeim. Eflaust hafa markaðsmennirnir meira vægi en þjónustufólkið og bónusar borgaðir fyrir nýja kúnna en ekki gamla. Fyrirtæki túlka gjarnan allt sér í hag og fara jafnvel í hart til að ná í smápeninga og tapa þannig viðskiptum. Ekki bara viðskiptum einstaklinganna sem við fyrirtækin deila heldur jafnvel líka viðskiptum einstaklinga sem fólkinu tengjast því slæmar sögur berast hratt og víða.

Við skulum sjá hvernig Tal tekur á þessu. Það verður forvitnilegt að heyra í þeim eftir helgi.

Ef fólk myndi bara hætta að vera ósammála mér myndi ég hætta að þrasa!

kvabb
Athugasemdir

Baddi - 01/08/08 16:41 #

Leiðinlegt að heyra af þessu.

Ég mundi fara fram á að fá útlistun yfir notkunina.

Ég hef heyrt það að Tal/Vodafone eða í þessu tilviki Vodafone sem lætur Tal fá upplýsingar um notkun einstaklinga/fyrirtækja sé í einhverjum erfiðleikum með að mæla netnotkun (þannig að hún sé rétt).

Ég mundi líka fara fram á að foreldrum þínum sé send ámynning eða tilkynningum í email um notkun þegar hún nálgast það mark að fara í umframnotkun.

Matti - 01/08/08 16:46 #

Ég er með yfirlit yfir notkun sundurliðað á daga - en til að fá ítarlegra yfirlit "þarf að kalla út tölvunarfræðing" og við að borga fyrir það ef í ljós kemur að notkun er rétt.

En að sjálfsögðu ætti að senda áminningu, þetta er algjörlega hulinn kostnaður. Málið er bara að foreldrar mínir hafa nær aldrei (þjónustufulltrúi fann eitt eldra tilvik) farið yfir þessi mörk, en nota þau netið hóflega.

Á þessu yfirliti sem ég er með er dæmi um næstum 5GB niðurhal á sólarhring. Það finnst mér ótrúlega mikið.

Bjarni - 01/08/08 18:52 #

Ég er einmitt búinn að lenda í að vera rukkaður fyrir erlent niðurhal hjá Vodafone þegar það á ekki við, eða ss allt erlent niðurhal er tekið sem umfamniðurhal og ég hef síðustu 2 reikninga verið að lenda í þessu hjá þeim.

En 5 GB á einum sólahring hljómar eitthvað skrítið...

-DJ- - 02/08/08 00:38 #

Þarna kemurðu fram með business 101 grundvallarpunkta Matti og það er lygilegt að fyrirtækið átti sig ekki á því.

Ef og þegar að fyrirtæki rukkar eftir úreltum samningi og að einungis eru betri samningar í boði fyrir nýja viðskiptavini, þá er þar gríðarlegt gat í stefnu þessa fyrirtækis.

En áherslan er alltaf á að fá nýja viðskiptavini, núverandi skipta engu máli, rétt eins og þú nefnir líka. Það er nefnilega alveg ótrúlegt. Tilvonandi viðskiptavinum bjóðast hinir ótrúlegustu hlutir, á meðan að þeir sem hafa verið í áskrift í 10 eða 20 ár fá helst ekki neitt. (Nú er ég að tala um fyrirtæki almennt, eins og t.d. 365).

Svo kemur ýmislegt fleira inn í netáskrift. Það skiptir t.d. voðalega litlu máli hvort þú hefur t.d 2 mb. tengingu eða 12 mb. þegar það kemur að niðurhali að utan. Oftar en ekki eru margir flöskuhálsar á leiðinni og þú ert svo fjarri því að fullnýta tenginguna einhvern tímann.

Ef það gerist nú, og þú ert með ótakmarkað niðurhal, þá er nú samt lokað á þig eftir að þú nærð ákveðnu magni af gögnum að utan.

Þegar upp er staðið, þá borgar sig engan veginn að borga aukalega fyrir öflugri tengingu, því hún er bara tekin úr sambandi ef það næst full nýting.

5 gb. á einum sólarhring er hins vegar ansi há tala, þar erum við að tala um torrent notanda (eða einhvern sem hefur stöðugt niðurhal í gangi allavega) sem er einkar heppinn með tengingar út held ég. Foreldrar þínir eru tæplega í þeim hópi miðað við lýsingar þínar.

Mér finnst það samt frekar góðar fréttir að það þurfi að kalla út mann til að fá nánari sundurliðun, það sýnir að það getur þá vonandi ekki hver sem er innan fyrirtækisins flétt upp netsögu þinni.