Örvitinn

Ættarmót um helgina

FjölskyldumyndHelginni eyddi ég á Þórisstöðum í Svínadal á ættarmóti. Niðjar langömmu minnar í móðurætt komu saman.

Gyða var heima þar sem hún er á fullu við að klára eitthvað smotterís uppgjör þessa, ég hef verið að reyna að segja henni að slumpa bara á þetta, það skoðar hvort sem er enginn þessar tölur (í versta falli flestir fjölmiðlar og svo eitthvað rætt um það á Alþingi). Ég fór því einn með Kollu og Ingu Maríu. Gisti í tjaldvagni með bróður mínum, hann fékk annan helminginn, ég og stelpurnar hinn. Það fór vel um okkur. Tjaldvagninn fengum við lánaðan hjá Ásmundi og Hörpu. Afskaplega skemmtilegur tjaldvagn, alveg eins og sá sem foreldrar mínir áttu einu sinni.

Ættarmótið var með hefðbundnu sniði, flestir sem mættu voru úr móðurfjölskyldu minni en þó mættu nokkrir fjarskyldari ættmenni mín. Ég var nokkuð rólegur á því, fékk mér smá bjór en fór í bælið með stelpunum í kringum miðnætti bæði kvöldin. Annars var borðað, spjallað, gengið, grillað, farið í sund og svo skaust ég að sjálfsögðu í bæinn til að glápa á fótboltaleik! Ég ætlaði að horfa á leikinn á Akranesi en komst að því þegar ég var að leggja af stað eftir sund að landsbyggðarfólki er ekki treyst til að fara í vínbúðina á laugardagseftirmiðdegi, búðirnar á Akranesi og í Borgarnesi loka klukkan fjögur á laugardögum en allar búðir á höfuðborgarsvæðinu eru opnar til sex. Ég brunaði því í Mosfellsbæ, horfði á leikinn á litlu kaffihúsi og rölti í vínbúðina í hálfleiki.

Er þokkalega þreyttur eftir helgina.

Ég tók helling af myndum, er búinn að setja nokkrar inn. Á eftir að bæta slatta af myndum við.

fjölskyldan
Athugasemdir

Matti - 20/08/08 18:39 #

Ég er loks búinn að bæta inn myndum.