Örvitinn

Handboltaleikurinn og skólasetning

Ég og stelpurnar horfðum á fyrri hálfleikinn og byrjunina á þeim seinni í vinnunni ásamt kollegum mínum. Þurfti svo að fara með dætur mínar í skólasetningu Ölduselsskóla. Það var korter eftir af leiknum þegar við fórum úr bílnum og gátum ekki lengur hlustað á lýsinguna. Skólastjórinn baðst velvirðingar á slæmri tímasetningu, þau sáu þetta ekki fyrir.

Af og til heyrðust fagnarhróp af kennarastofunni þannig að ég taldi ljóst að þetta væri komið í hús. Þegar leiknum lauk voru fréttir af úrslitum fljótar að berast til foreldra og barna.

Skólinn er semsagt að byrja. Áróra Ósk mætti í skólasetningu MR í gær, ég tuða kannski örlítið útaf kristniboðinu sem þar fór fram síðar. Skólinn hófst svo fyrir alvöru hjá Áróru í dag. Stelpurnar byrja á fullu eftir helgi. Í vetur verður í fyrsta skipti boðið upp á heitan mat í hádeginu og krakkarnir þurfa ekki lengur að rölta í ÍR heimilið til að fara í leikfimi. Hvoru tveggja er til mikilla bóta - viðbyggingin við Ölduselsskóla mun breyta ýmsu til hins betra í skólastarfinu.

dagbók
Athugasemdir

Kristján Hrannar Pálsson - 22/08/08 18:30 #

Sem fyrrverandi nemandi í MR þykist ég vita gegnum rektor að það fyrirkomulag að hafa skólasetninguna í Dómkirkjunni er algerlega vegna húsnæðisskorts (og Dómkirkjan sem slík er líka að verða of þröngur staður). Hins vegar er það óþolandi að allir skulu látnir biðja faðirvorið við skólasetninguna, ætli skólayfirvöld líti ekki undan í nokkrar mínútur til að fá þessa aðstöðu ókeypis einu sinni á ári.

Matti - 22/08/08 18:45 #

Þetta var víst meira en bara Faðirvorið og já, að sjálfsögðu er það óþolandi að skólasetning skuli hefjast með einhverri trúarinnrætingu.

Ég hef ekkert á móti því að húsnæðið sé notað, enda byggt fyrir skattfé, en mér finnst lágmark að trúboðinu sé sleppt.

hildigunnur - 22/08/08 21:47 #

heh, alveg er ég nokkuð viss um að við skólasetningu MH var ekkert svona kjaftæði. Spyr dótturina - Neibb, ekki orð. Né í Iðnskólanum (unglingapartí hér niðri, sko :D )