Örvitinn

Orð Guðna "fegruð" á Alþingisvefnum

Vonandi muna einhverjir eftir því þegar Guðni Ágústsson sagði: „það er ekki til neitt siðgæði í rauninni nema kristið siðgæði“.

Þeir sem lesa ræðu Guðna á Alþingisvefnum gætu aftur á móti haldið að hann hefði sagt eitthvað allt annað því þar stendur:

„Það er í rauninni ekki til neitt sem hefur bætt heiminn jafnmikið og kristið siðgæði.“

Þessi fullyrðing er reyndar ekki miklu skárri* en þetta er allt annað en það sem hann lét úr sér á þingi. Svona reyna menn að fegra vitleysuna eftir á. Hægt er að horfa á ræðu Guðna og staðfesta að þarna hefur ræðunni verið breytt (siðgæðið er kl. 15:48).

Enn þann dag í dag hefur enginn Framsóknarmaður, hvorki Guðni né nokkur annar, dregið orð hans til baka opinberlega. Framsóknarstefnan er enn sú að ekki sé til neitt siðgæði nema kristið siðgæði. Já og einnig sú að það sé í lagi að ljúga fyrir "réttan" málstað.

* Ef ég mætti svo stinga upp á einhverju sem hefur bætt heiminn meira en kristið siðgæði myndi ég t.d. nefna akuryrkju, skrift og pensilín. Auk þess bíð ég enn eftir að einhver segi mér hvað kristið siðgæði er.

Uppfært:

Guðni játar

Guðni Ágústsson hefur viðurkennt að hafa "breytt aðeins um orðalag" í ræðu sinni.

kristni pólitík
Athugasemdir

Ásgeir - 26/08/08 13:37 #

Bölvaðir!

Jóhannes Proppé - 26/08/08 13:47 #

Þetta er hreinn og klár skandall. Sorglegast er að maður bjóst ekki við neinu betra af pólitíkus, hvað þá framsóknarmanni.

Jens - 26/08/08 14:57 #

Það er nú fleira sem er fegrað á þeim vef. Skoðið til dæmis æviágrip Árna Johnsens.

Maður spyr sig til hvers þessar upplýsingar séu ef ekki til að kjósendur/almenningur geti fengið raunsannar upplýsingar um a) það sem sagt er og b) lífshlaup fólks.

Merkingu þess sem er sagt á ekki að breyta og það á ekki að búa til nýjar sögur um ævi fólks.

Magnús - 26/08/08 15:40 #

Hvern hefur maður samband við til að láta vita af þessu og laga?

Matti - 26/08/08 15:45 #

Væntanlega verður þetta lagað við yfirlestur. Annars geri ég ráð fyrir að skrifstofa Alþingis sjái um þessi mál.

Matti - 26/08/08 15:48 #

Það sem hér hefur einfaldlega gerst er að Guðni skilaði inn ræðu sem var ekki eins og sú sem hann flutti. Starfsfólk Alþingis á eftir að yfirfara textann og mun þá vonandi breyta honum til samræmis við það sem Guðni sagði. Þetta er setning sem á eftir að lifa lengi.

Guðna verður því miður ekki breytt í leiðinni.

Matti - 26/08/08 16:12 #

Svo ég kommenti hjá sjálfum mér í þriðja skipti í röð þá gengur það ekki alveg upp. Í mörgum ræðum sem hafa verið merktar "óyfirlesnar" eru innskot eins og (Forseti hringir), (hlátarsköll) og (Gripið fram í) þannig að textinn kemur ekki beint frá þingmanni. Hugsanlega er hann lausleg yfirfarinn fyrst og innskotum bætt í textann, ég veit það ekki. Kannski hefur yfirlesara ekki þótt ástæða til að breyta þessari tilteknu setningu þó hún sé í litlu samræmi við það sem sagt var.

Matti - 26/08/08 21:41 #

Jæja, ég get hætt að velta því fyrir mér hvernig þetta gerðist. Guðni játar að hafa breytt ræðunni.

Erna - 29/08/08 21:29 #

OK, ég er búin að vera of lengi í burtu frá Íslandi. Eruð þið að meina að Íslendingar hafi kosið Herra Johnsen aftur á þing? Ég er búin að klípa mig tvisvar í síðuna til þess að athuga hvort mig sé að dreyma....

Gunnar J Briem - 30/08/08 12:19 #

Ég fæ ekki betur séð en að Guðni hafi brotið þingskaparlög. Ég efast samt um að nokkur hafi áhuga á að eltast við þetta nema e.t.v. "fámennur hópur ofstækisfullra trúleysingja" sem ekkert almennilegt siðavant (eða kannski siða vant) fólk hlustar á.

Matti - 30/08/08 12:26 #

Ég ætti kannski að kæra Guðna til lögreglu? Sé samt ekki í lögunum að það sé hægt.

Erna, já Johnsen er á þingi enda fékk hann víst æruna aftur og þá er allt í lagi. Lastu biblíuræðuna hans? Mæli með því að fólk horfi á hana.