Örvitinn

Guðni í Morgunblaðinu

Kolbrún Bergþórsdóttir ræðir við Guðna Ágústsson í laugardagsblaði Moggans.

Nú ert þú gagnrýndur fyrir að hafa breytt ræðu þinni í þinginu um kristilegt siðgæði fyrir birtingu í Alþingistíðindum. Af hverju gerðir þú það?

„Ég á mína barnstrú og það væri fáránlegt af manni sem hefur verið gæfusamur að þakka ekki forsjóninni og einhverju afli sem maður finnur í kringum sig. Það finna margir að yfir þeim er vakað. Umrædd ræða í þinginu var þannig að ég gekk fulllangt og það hefði verið auðvelt að stimpla mig öfgamann. Ég sagði þar að í rauninni væri ekkert annað siðgæði til en kristið siðgæði. Ég breytti svo textanum og sagði að ekkert hefði bætt heiminn jafn mikið og kristið siðgæði.
Auðvitað eiga ýmsar trúarhreyfingar og trúlausir menn með sér göfuga siðgæðisvitund. Ég vildi sýna þeim þá virðingu að níða ekki þeirra lífsskoðanir, en hins vegar er ég sannfærður um að ekkert siðgæði hefur breytt veröldinni jafnmikið og kristið siðgæði. Þetta er það sem ég vildi sagt hafa og leyfði mér að breyta ræðunni samkvæmt því.“

Eitt af því sem er skondið er að ef lesendur Morgunblaðsins fengju bara fréttir úr því blaði vissu þeir ekkert um hvað málið snýst! Ég veit ekki betur en að eina umfjöllun blaðins sem birst hefur á prenti um þetta mál hafi verið í sama blaði (skjáskot af frétt) þar sem ályktun Sagnfræðingafélagsins er birt en áður hafði mbl.is sagt frá henni. Þar er ekki minnst á Guðna, en þó er mynd af honum með ályktuninni sem er dálítið skemmtilegt.

fjölmiðlar pólitík
Athugasemdir

Óli Gneisti - 08/09/08 10:20 #

Ég sé nú ekki mikla eftirsjá hjá honum og Björn Bjarnason benti réttilega á, eins og ég, að ef hann sá eftir orðum sínum þá hefði hann átt að segja það frekar en að fara svona eins og þjófur að nóttu.

Mig grunar að ástæðan fyrir því að Guðni breytti þessu sé fyrst og fremst af því að honum var bent á að þetta liti illa út.

Valdís - 08/09/08 10:53 #

Nú hef ég verið erlendis undanfarna daga og ekki fylgst með, en var Björn Bjarnarson í alvörunni að gagnrýna aðra fyrir að breyta texta sem hafa verið birtir á opinberum vettvangi? Nú er hann alþekktur fyrir það sjálfur að breyta t.d. texta á blogginu sínu ef hann fær slæm viðbrögð við honum. Þess vegna tölum við um það á mínu heimili að „Bjössa texta“ þegar þetta er gert.

Matti - 08/09/08 10:59 #

Hér tjáir BB sig um málið:

Ég er sammála þessum orðum sagnfræðinganna og að óreyndu hefði ég talið, að þingmenn skiptu ekki um skoðun á milli ræðu og birtingar hennar í þingtíðindum, hvað þá að hin nýja skoðun birtist aðeins í leiðréttum texta þingtíðinda en væri ekki kynnt þingheimi í ræðustól alþingis. Stundum hnika ég orðaröð, ef ég les ræður mínar fyrir birtingu. Efni þingræða má ekki breyta heldur aðeins snurfusa texta
...
Að mínu mati hefði Guðni átt að beita því ráði í þessu máli að taka til máls í upphafi þingfundar, segjast hafa kveðið of fast að orði og óska leiðréttingar á orðum sínum – allir eiga rétt á leiðréttingu orða sinna.

Óli Gneisti - 08/09/08 10:59 #

Það er stór munur á bloggi og þingræðu.

Magnús - 08/09/08 13:38 #

Og það er risastór munur á því að snyrta texta aðeins, til dæmis með því að breyta orðaröð, og því að breyta merkingunni algjörlega.

Legopanda - 08/09/08 21:20 #

Ég er eiginlega alveg gáttaður á því hvernig hann Guðni talar um þetta atvik, eins og það sé í raun ekkert sjálfsagðara en að breyta texta ræðu í skjölun frá því hvernig hún var þegar hún var flutt.

Á skjalfesting ræðunnar að sýna umræðuna á alþingi eins og hún var í raun, eða eins og allir hefðu viljað að hún hefði komið út eftir á?