Örvitinn

Klöguskjóða

Á föstudagskvöld hringdi ég í lögguna og klagaði.

Vorum á leið í bústað eftir að hafa komið við í Vinakaffi í Borgarnesi og borðað kvöldmat. Klukkan var rúmlega níu og það var ansi dimmt þegar við ókum frá Borgarnesi. Um sex-átta kílómetra frá Borgarnesi ókum svo fram á ljóslausa dráttarvél sem ók eftir þjóðveginum. Ég var ekkert að kitla pinnann og því var ekki hætta í okkar tilviki en ef einhver brjálæðingurinn (það er nóg af þeim á þjóðveginum) hefði ekið þarna á hundrað og tuttugu er hætt við því að illa hefði farið, sérstaklega ef það hefði verið umferð á móti.

Ég er þeirrar skoðunar að fólk eigi að gera eitthvað í svona tilvikum, ekki bara þusa og bíða eftir að slysin gerist þannig að ég hringdi í lögguna og klagaði. Ætli ég sé ekki orðinn miðaldra.

Hef ekki hugmynd hvort eitthvað kom út úr því.

dagbók
Athugasemdir

Birgir Baldursson - 08/09/08 12:41 #

Það fylgir yfirleitt því að nálgast miðjan aldur að menn verða ábyrgari en áður.