Örvitinn

Pólitík og lygar

Þegar ég kvartaði nýlega útaf lygum ríkiskirkjunnar í athugasemd á bloggsíðu ríkiskirkjuprests sagði hann að þetta væri bara "pólitík". Hann hafði rétt fyrir sér.

Það er merkilegt að fylgjast með pólitík í dag því hún er svo óskaplega ómerkileg. Það eru svo margir að ljúga. Lygarnar flæða og svo rembast hinir að svara lygunum. Fjölmiðlar nenna yfirleitt ekki að skoða staðreyndir heldur snýst umfjöllun þeirra um að heyra "báðar hliðar" málsins. Engu máli skiptir þó önnur hliðin sé kjaftæði.

Ef fylgst er með umræðunni í Bandaríkjunum þessa dagana er þetta sérstaklega áberandi. Þar er taktík repúblikana sú sama og í síðustu forsetakosningum. Ljúga nógu miklu, t.d. segja ósatt um skattastefnu andstæðingsins og láta hann eyða allri sinni orku í að svara fyrir sig, . Þessar lygar rata reglulega í íslenska fjölmiðla enda vaninn hér að endursegja gagnrýnislaust það sem fram kemur í erlendum miðlum.

Lygaherferð ríkiskirkjunnar var einmitt af þessum toga, saka einfaldlega trúleysingja um skoðanir sem þeir ekki höfðu og horfa á svo okkur rembast við að leiðrétta "misskilninginn".

Hér á landi eru stjórnmálamenn byrjaðir að taka upp aðra taktíkt repúblikana og farnir að rembast við að gera sér upp sárindi af minnsta tilefni. Það er önnur algeng taktík sem ég vona að nái ekki fótfestu hér, það er oft sérlega pínlegt þegar stjórnmálamenn kveinka sér af litlu tilefni. Í raun er stjórnmálaumræðan að færast nær trúmálaumræðunni eins kjánalegt og það hljómar.

Aldrei sárnar lygurum svo meira en þegar þeir eru réttilega sakaðir um lygar.

pólitík
Athugasemdir

Kristinn - 10/09/08 15:52 #

sorglegt dæmi um svona óvandaðan fréttaflutning er fyrirsögn á Eyjunni í dag þar sem segir að Obama hafi kallað Söruh Palin svín.

Það hefur hann aldrei gert.

en svona er fjölmiðlaumhverfið í dag, skiptir ekki máli að vera með réttar fréttir, heldur að vera með mikið áhorf eða lestur. Allt snýst þetta jú um peninga.

hverjum er ekki sama þótt sannleikunum sé ýtt til hliðar ef hægt er að græða nokkrar krónur á því?

Matti - 10/09/08 22:34 #

Það er einmitt ansi gott dæmi. Í tíufréttum sjónvarps var svo fjallað um það mál frá sjónarhorni repúblikana.

Fjölmiðlar eru drasl.