Örvitinn

Hverfisfundur með lögreglunni

Við hjónin skelltum okkur á hverfisfund með lögreglunni í Ölduselsskóla í kvöld.

Fundurinn var ágætur þó tölvuklúður ylli því að kynning hófst síðar en planað var. Stefán Eiríksson lögreglustjóri Höfuðborgarsvæðisins hélt kynningu og reyndi að sannfæra fólk um að glæpum hefði ekki fjölgað í Seljahverfi síðustu misseri. Í ágúst voru víst óvenjumörg innbrot í hverfinu og fólk er fljótt að sjá trend í litlum tölum. Stefán sýndi töflur og gröf þar sem hann bar saman glæpatíðni síðustu ára.

Ég tjáði mig örlítið um reynslu mína og kvartaði dálítið undan því hve litlar upplýsingar ég hefði fengið um okkar mál. Ansi margir spurðu spurninga eða komu með ábendingar. Sumir töluðu alltof mikið og lengi eins og gengur og gerist, húsfundatýpan mætir líka á borgarafundi.

Að fundi loknum ræddi ég örstutt við hverfislögguna og sagði frá því þegar við hjónin urðum vitni að því að bíll ók gegnum undirgöng í hverfinu um daginn. Það verður fróðlegt að sjá hvort það verður komin einhver hindrun næst þegar við röltum þessa leið.

Þegar Stefán benti á að samkvæmt gögnum væri ekkert meira um innbrot á ákveðnum dögum eða tímum dags langaði mig óskaplega að spyrja hvort það væri samt ekki örugglega miklu meira um innbrot á fullu tungli. Geir Jón var nefnilega líka á staðnum.

Svona borgarafundir eru stórgott framtak. Það er flott gefa fólki upplýsingar og leyfa því að tjá sig örlítið um þessi mál milliliðalaust. Mér finnst reyndar svindl hvað ég sást lítið í tíufréttum :-)

dagbók