Örvitinn

Hlutlaust trúaruppeldi

Halla moggabloggari segir frá því að sonur hennar er að byrja í leikskóla. Þó hún sé trúlaus (held ég) finnst Höllu að barnið eigi að taka þátt í trúboði (heimsóknum djákna í leikskólann) og segir um leið að henni finnist vantrú vera trúarbrögð og ég get ekki skilið hana öðruvísi en að henni finnist þeir sem berjast gegn leikskólatrúboði vera öfgamenn. Ég sé ekki betur en að Halla sé dálítið dæmigerður sinnuleysingi í trúmálum.

Viðhorf Höllu er að mínu mati vanhugsað. Hún stillir þessu upp þannig að fínt sé að börnin fái kynningu á kristni (trúboð) og velji svo sjálf. Eins og aðrir á undan henni (t.d. Salvör Nordal) dettur henni ekki í hug að velta fyrir sér hvort barnið fái kynningu á öðru en kristni. Ef við ætlum að tala um að börn hafi eitthvað val hljótum við að boða Íslam, Gyðingdóm, Búddatrúa, Scientology, trúleysi og fleira með sama hætti og kristni - því án þess að börn þekki alla valmöguleika er ekkert raunverulegt val. Myndi einhver réttlæta kennslu í (ekki um) rasisma í leikskólum á þeim forsendum að börn þyrftu að hafa eitthvað val? (N.b. það er algjör óþarfi að draga Jón Magnússon inn í þessa umræðu)

Raunin er að það eru einungis kristnir trúboðar sem herja á leik- og grunnskóla. Engin önnur lífsskoðunarfélög reyna að stunda áróður á þeim vettvangi. Meira að segja stjórnmálaflokkar láta leik- og grunnskólana eiga sig því jafnvel þar gerir fólk sér grein fyrir því að slíkur áróður er siðlaus.

Ég segi það enn og aftur. Leik- og grunnskólar eiga að vera hlutlausir í trúmálum, þar á ekki að fara fram nein boðun. Sú boðun á heima í Sunnudagaskólum. Þangað getur trúað fólk sent börnin sín ef það vill að þau fái villandi einhliða áróður um hindurvitni trúarbragða.

leikskólaprestur
Athugasemdir

Óli Gneisti - 17/09/08 16:26 #

Það er ágætt að fá svona spark í rassinn stöku sinnum, það minnir mann á hve baráttan er nauðsynleg. Djöfull er ég reiður, djöfull er ég reiður.

Hildur - 17/09/08 18:30 #

Hræsni viðkomandi bloggritara ríður ekki við einteyming samanber:

Kiza...ef leikskólinn segði mér að einhver væri að koma í leikskólann til að boða Íslam þá væri afstaða mín önnur. Ég er nú ekki sanngjarnari en það. Djákninn frá kirkjunni boðar ekki trú heldur syngur með börnum og talar um mikilvægi vináttu og fleira. Sá sem kæmi undir merkjum Allah færi aðrar leiðir mundi ég halda enda eru ekki falleg lög og leikir undir þeirra hatti

Teitur Atlason - 17/09/08 18:56 #

Sorglegt innlegg hjá Höllu moggabloggara:

Mattías: Þetta er rétt hjá þér (hér efst) að við höfum í raun ekki val. Við erum neydd til að barnið okkar taki þátt í kristilegum uppákomum. Það er nefnilega ekki val að einangra barnið frá.

Rétt hjá þér og ólíkt mér kannski. Veistu að í þessum leikskóla eru 63 börn og öll kristinn, hvað á ég að gera.

-o-o-o-o-
Þetta er afstaða hugleysingjans. Að sætta sig við órétti af ótta við að rugga bátnum. Hún segir ennfremur að djákninn sé bara að árétta um gildi vináttunar og svoleiðis. Halla ætti að spyrja sig þeirrar spurningnar hvað í ósköpunum ríkiskirkjan sé að senda djákna til þess að hamra á svo sjálfsögðum hlutum.

það er ástæða fyrir ásókn ríkiskirkjunnar inn í leikskóla landsins. Alveg eins og það er ástæða fyrir því að það eru spilakassar í sumum sjoppum...

hildigunnur - 17/09/08 23:14 #

Reifst um þetta mál í partíi fyrir rúmu ári, viðbrögðin voru aðallega: Æ, mér finnst þetta nú bara svooo sætt!

Hvað segir maður við svona? Ég gafst upp, satt að segja, engu tauti við fíflin komandi...

Matti - 18/09/08 10:33 #

Ég á afskaplega erfitt með að rökræða þetta málefni því ég sé einfaldlega ekki að þeir sem verja trúboð í leik- og grunnskólum hafi nokkur rök fyrir máli sínu.

Þeir sem verja ójafnrétti hafa einfaldlega ekki nein rök og það er ekki hægt að rökræða við þá.

Ég er sífellt að benda á sömu staðreyndir en það virðist stundum ekki hafa neitt að segja.

Verstir þykja mér svo trúlausu sinnuleysingjarnir sem verja trúboðið á þeim forsendum að þetta skipti þá ekki máli. Ég held að raunin sé að þetta fólk hefur einfaldlega ekki kjark til að mótmæla. Ég get haft samúð með því en þætti betra ef fólk kæmi hreint fram og játaði það.