Örvitinn

Gjaldeyriskrísan og samstarf fyrirtækja

Mér þykir undarlegt hvað fyrirtæki virðast ósjálfbjarga í gjaldeyrismálum um þessar mundir. Að sjálfsögðu er hrikalegt þegar erlendir bankar sýsla ekki með krónuna og koma þannig í veg fyrir að hægt sé að flytja peninga til eða frá landinu. Ég hefði haldið að fyrirtækin ættu að geta unnið saman til að redda málunum.

Fréttir berast af því að útflutningsfyrirtæki fái ekki greitt jafnvel þó viðskiptavinir þeirra reyni að millifæra. Það sé ekki hægt að koma aurunum til landsins og því geta útflutningsfyrirtæki ekki greitt laun og reikninga hér á landi þó þau eigi fullt af peningum erlendis. Á sama tíma eru innflutningsfyrirtæki að berjast um að fá gjaldeyri til að greiða birgjum sínum erlendis, Seðlabankinn skammtar aurinn.

Af hverju tala þessir aðilar ekki saman? Innflutningsfyrirtækin fá gjaldeyri útflutningsfyrirtækjanna (sem birgjar þeirra vilja greiða þeim) og útflutningsfyrirtækin fá krónur frá innflutningsfyrirtækjum og geta þannig greitt sína reikninga. Vissulega dálítið gamaldags viðskipti en ég sé ekki af hverju þetta ætti ekki að virka. Lyfsalinn hefur samband við útgerðarfyrirtæki sem hefur samband við viðskiptavini sína erlendis og fær þá til að greiða inn á reikning birgja lyfsalans, lyfsalinn greiðir útgerðarfyrirtækinu miðað við meðal gengi gjaldmiðla hjá íslensku bönkunum.

Er ég að gleyma einhverju grundvallaratriði viðskipta sem kemur í veg fyrir svona reddingar eða eru fyrirtæki kannski að stunda þetta nú þegar?

pólitík
Athugasemdir

Erna Magnúsdóttir - 20/10/08 10:37 #

Það er akkúrat þessi samvinna sem menn óttast, en virðist óhjákvæmileg í stöðunni. Að krónan verði gersamlega verðlaus því útflutningsfyrirtækin komi ekki með hana heim...

hildigunnur - 20/10/08 12:22 #

Erna, en útflutningsfyrirtækin komast ekkert með pening heim - og það væri væntanlega krónur, ekki gjaldeyrir.

Erna Magnúsdóttir - 20/10/08 17:06 #

Já, ég er bara að segja að það er skítt að staðan sé svona. Auðvitað eiga menn að bjarga sér. Skárra væri það nú!!!! Og ég orða þetta náttúrulega bara asnalega. Þau koma ekki með krónuna heim heldur kaupa hana fyrir gjaldeyri, mér finnst bara fúlt að þetta sé orðið svona. Þetta er bara allt ansi skítt...

Kristín í París - 20/10/08 17:12 #

Ertu að segja mér að ég geti farið að selja evrur hérna úti til Íslendinga á einhverju spennandi gengi? Ég er nefninlega með íslenskan bankareikning og kem heim um jólin... múahahahaha

Matti - 20/10/08 17:14 #

Auðvitað áttu að gera það ;-) (mér þætti reyndar ekki fallegt af þér að okra en ég held að þú ættir að geta selt evrurnar á sanngjörnu gengi)

Kristín í París - 21/10/08 14:46 #

Ég hef ekki svona braskaraeðli í mér. Ef einhver bæði mig um að gera sér greiða, tæki ég kannski þóknun EF það væri stöndugt fyrirtæki.