Örvitinn

Laun ríkisforstjóra og bankastjóra

Í fréttum kom fram að nýr bankastjóri nýja Kaupþings fær 1.950þ á mánuði og talað var um að þetta væru hefðbundin laun ríkisforstjóra.

Þetta finnst mér skrítið því í dag mætti nýr forstjóri Landsspítala til starfa. Hulda Gunnlaugsdóttir stjórnar stærsta vinnustað landsins og þeirri ríkisstofnun sem hefur hæstu útgjöldin. Hún fær 1.618þ á mánuði. Bankastjórinn er því með um 20% hærri laun en forstjóri stærstu ríkisstofnunarinnar. Af hverju í ósköpunum? Vegna þess að hann er með typpi?

Mér finnst út í hött að nýir ríkisbankastjórar fái hærri laun en forstjóri LSH. Það er skandall ef svo verður og ég krefst þess í raun að laun bankastjóranna verði lækkuð til samræmis við laun forstjórans. Satt að segja finnst mér að enginn starfsmaður ríkisbankanna eigi að fá meira en milljón á mánuði.

feminismi pólitík
Athugasemdir

Anna - 21/10/08 22:11 #

Mig grunar að laun forstjóra Landsspítala og laun bankastjóra verði mun lægri mjög fljótlega eftir að lánið frá IMF er endanlega staðfest. Íslendingar þurfa að sjá laun í samræmi við laun í öðrum löndum og hafa hliðsjón af hvað er að gerast í landinu. Launin muni lækka alls staðar í þjóðfélaginu eða skattar muni hækka samsvarandi.

Þetta er bara að byrja