Örvitinn

Umdeild kjölfesta á Alþingi

Hér á landi ríkir trúfrelsi. Þjóðkirkjan hefur sérstöðu meðal trúfélaga hér á landi, m.a. í ljósi sögunnar. Samkomulag er í gildi milli ríkisins og þjóðkirkjunnar um fjárhagsleg málefni sem byggist á sterkum grunni. Þessu frumvarpi er ekki ætlað að hrófla við þessu fyrirkomulagi. Hins vegar er með frumvarpi þessu lagt til að styðja frekar við önnur skráð trúfélög hér á landi með því að gefa þeim hlutdeild í Jöfnunarsjóði sókna með sama hætti og gildir um söfnuði þjóðkirkjunnar til að styðja við kirkjulegt starf og ekki síður til að veita styrki til uppbyggingar og endurbóta í aðstöðu trúfélaga. Óumdeilt er að trúarlegir söfnuðir, burtséð frá trúarhugmyndum, eru ákveðin kjölfesta í samfélaginu og veita stuðning og styrk til einstaklinga og fjölskyldna óháð samfélagslegri stöðu, langt umfram það trúarstarf sem er grundvöllur starfsemi þeirra. #

Ásta Möller mælir fyrir lögum þar sem haldið er áfram að brjóta gegn réttindum þeirra sem hafa aðrar lífsskoðanir en þær sem ríkið viðurkennir.

Hér er lítil og einföld tillaga frá mér:

Hættið að greiða trúfélögum úr ríkissjóði. Látið þau reka sig eins og önnur félög, t.d. íþróttafélög. Hættið að skattleggja trúleysingja og gyðinga aukalega fyrir það eitt að vera til. Þeir sem vilja vera í trúfélögum skrá sig í þau og greiða fyrir þátttöku úr eigin vasa, ríkið á ekki að reka innheimtudeild trúfélaga. Ríkið á þar að auki ekki að halda nokkra opinbera skrá yfir trúfélagaskráningu þegnanna, það kemur hinu opinbera ekki við hverju fólk trúir.

Víst er umdeilt hvort trúarlegir söfnuðir séu "kjölfesta" í samfélaginu. Það er meira að segja afskaplega umdeilt og Ásta veit það vel enda hefur hún fylgst með umræðum um þessi mál. Við búum ekki í Biblíubelti Bandaríkjanna. Já og þessi "sterki grunnur" sem samkomulag ríkis og kirkju byggir á, hann er ekkert sérlega sterkur.

pólitík
Athugasemdir

Guðni - 29/10/08 17:33 #

Íþróttafélög eru mjög lélegt dæmi. Þrátt fyrir að íþróttafélög séu ekki jafn lögboðin og ríkiskirkjan þá er rekstur þeirra nánast eins. Niðurgreidd af sveitarfélögum og íþróttamannvirki greidd að langmestu leyti af sveitarfélögum. Vildi bara benda þér á það.

Matti - 29/10/08 17:43 #

Ég myndi ekki segja að þetta væri "mjög lélegt" dæmi þó eflaust sé hægt að finna betri. Íþróttafélög sjá sjálf um að innheimta félagsgjöld, jafnvel þó sveitarfélög styrki einstaklinga til þátttöku.

Ætli klúbbar séu ekki betra dæmi, t.d. Liverpool klúbburinn en sumir hafa viljað líkja fótbolta við trúarbrögð. Það væri eitthvað undarlegt við það ef ríkið héldi skráningu um stuðning fólks við fótboltalið og innheimti svo gjald af öllum, óháð því hvort fólk fylgist með boltanum eða ekki.