Örvitinn

Skuldir eiginhagsmunaseggja

Samkvæmt kenningunni er nauðsynlegt að fella niður skuldir bankamanna svo þeir geti starfað áfram í bönkunum. Ef þeir yrðu gjaldþrota mættu þeir ekki, lögum samkvæmt, starfa hjá banka.

Vandamálið er að fólk sem hefur stofnað til hárra skulda og fengið þær niðurfelldar er augljóslega ekki hæft til að starfa í banka. Það skilur ekki grundvallaratriði trausts bankareksturs sem hlýtur að vera að lána til traustra aðila ("skilur" er kannski rangt orð, það er ónæmt fyrir þessum grundvallaratriðum).

Það þarf því nýtt fólk í bankana, þeir sem fengu niðurfellingu skulda eiga einfaldlega að fara annað. Ekki vegna þess að þeir eru slæmt fólk heldur vegna þess að þeim er ekki lengur treystandi til að huga að hagsmunum bankanna og almennings. Þetta eru of miklir eiginhagsmunaseggir og bankar mega ekki vera í höndum eiginhagsmunaseggja.

Auðvitað erum við öll eiginhagsmunaseggir - en öllu má ofgera og fólk sem vildi græða milljarða verður í dag að sætta sig við að eiga ekki neitt. Í því felst meðal annars að það þarf að skipta um húsnæði, fara úr höllinni í íbúð, selja bílinn og taka strætó. Það er ekkert endilega auðvelt en því miður - þannig þarf þetta bara að vera. Frekar þetta fólk en það sem setti sparnað sinn í "traustan" bankasjóð.

Þau fengu að taka þátt í leiknum, spiluðu hátt og töpuðu. Nú er verið að endurskoða leikreglurnar og svo þurfa aðrir að fá tækifæri til að sýna að þeim sé hægt að treysta.

pólitík