Örvitinn

Pólitísk samleið

Ég heyrði brot af ávarpi mjóróma ræðumanns af Austurvelli í útvarpinu í dag. Varð dálítið hugsi. Gat nefnilega varla tekið undir orð af því sem hann sagði. Í fyrsta lagi vegna þess að hann sagði fátt sem hægt var að festa hönd á en einnig vegna þess að það sem þó var skilmerkilegt byggði meira og minna á reiði og fordómum.

Stundum þarf fólk að átta sig á því að þó einhverjir séu sammála um að vera á móti er ekki þar sem sagt að þeir eigi samleið í framhaldi. Sem dæmi geri ég mér grein fyrir því að þegar ég ræði við fólk um trúmál eru langflestir á sömu línu og ég varðandi trúboð í leikskólum, stærsti hluti fólks er einnig sammála mér varðandi samband ríkis og kirkju en ég geri mér grein fyrir að ekki eru allir sammála lífsskoðunum mínum.

Þess vegna skil ég vel að fólk komi saman og mótmæli ástandinu, ríkisstjórninni, yfirvaldinu, hrokanum, auðvaldinu og Davíð Oddssyni. Ég styð mótmæli, jafnvel þegar ég er ekki sammála þeim sem mótmæla. Ég tel mótmæli nauðsynleg og þoli ekki þegar reynt er að gera lítið úr mótmælendum.

Þegar ræðumenn eru komnir hálfa leið í að boða blóðuga byltingu og alræði öreiganna held ég að þær ættu að halda kjafti. Fólk ætti a.m.k. að hlusta vel og hugsa áður en það tekur undir - en það er reyndar ómögulega á svona fundum þar sem stemmingin nær tökum á fólki. Fólk vill breytingar, það er enginn vafi. Vandamálið er að fólk vill ekki endilega sömu breytingar. Sumir vilja henda krónunni, aðrir vilja halda henni. Sumir vilja ganga í ESB, aðrir vilja slíta EES samningnum. Sumir vilja semja, aðrir að við stöndum fasta á okkar. Sumir vilja erlend lán, öðrum finnst við ættum að sleppa því og þreyja þorrann.

Ég er þeirrar skoðunar að stjórnvöld hafi gjörsamlega gert í brækur undanfarið. Á sama tíma er ljóst að fólk hefur verið að vinna á fullu í þessum málum og af heilindum þó sumir vilja halda öðru fram. Upplýsingastreymi hefur verið lélegt og forsætisráðherra kemur ákaflega illa fyrir á fréttamannafundum þar sem hann svarar með hortugheitum og stælum í stað þess að vera auðmjúkur og heiðarlegur. Hluti af vandamálinu er að þeir aðilar sem við höfum leitað til hafa ekki komið hreint fram. Hér héldu menn að okkar mál yrði afgreitt á vissum tíma því það voru skilaboðin sem við fengum - en svo breyttust þau. Jafnvel þó Jónasar vilji ekki trúa því er það satt.

Það eru alltof margir að rembast við að slá sig til riddara þessa dagana. Alltof mikið af fólki sem ég styð í mótmælum en á enga samleið með í framhaldi. Við þurfum ekki viðsnúning heldur lagfæringar. Betri reglur, nýtt fólk og alvöru ábyrgð.

Annars held ég að það sé best að ég haldi kjafti.

pólitík
Athugasemdir

Eyja - 16/11/08 10:57 #

Nei, alls ekki. Þ.e.a.s. ég lýsi mig andsnúna síðustu setningunni, þú átt ekkert að halda kjafti.

Sindri Guðjónsson - 16/11/08 11:45 #

Ég vil taka það fram, að þegar ég sagði "já, nákvæmlega", þá var ég að taka undir með efni blogg færslunnar, en ekki segja að Matti ætti að halda kjafti. :-)

Ég myndi einmitt vilja mótmæla ýmsu, en ekki nema að sumu leyti samleið með þeim sem taka til máls og koma til að mótmæla.

hildigunnur - 16/11/08 22:32 #

Það þarf sannarlega að hreinsa út, ef á að koma nýtt pólitískt afl hér heima, mjöööög langt frá því að ég geti hugsað mér að krossa við alla þá sem hér hafa tekið til máls á fundum, þó margir séu auðvitað góðir!