Örvitinn

Religulous

Ég sá Religulous í kvöld. Ef þið viljið vita hvað mér finnst þurfið þið að hlusta á Bylgjuna klukkan átta í fyrramálið!

Tja, ég skrifa svo kannski eitthvað meira í þessa færslu á morgun.

Uppfært:
Eins og ég sagði á Bylgjunni í morgun var ég ekkert rosalega ánægður með þessa mynd. Ég hafði miklar væntingar enda finnst mér Bill Maher afskaplega fyndinn og beittur gagnrýnandi trúarbragða. Vandamálið með myndina aftur á móti er að hún fer um of víðan völl, það er aldrei staldrað við og rýnt í nokkuð.

Þó bendir myndin vel á fáránleika trúarbragða. Trúarbrögð eru absúrd þegar við stöndum utan þeirra en þeir sem aðhyllast þau átta sig ekki á því. Þannig geta flestir hlegið að kreddum Scientology eða Mormóna en finnst svo ekkert fyndið við kenningar kristindóms þó þær séu alveg jafn klikkaðar.

Einnig fannst mér ágætt að í myndinni eru trúleysingjar hvattir til að "koma úr skápnum" auk þess að bent er á að sinnuleysingjar mættu gjarnan taka afstöðu, með hlutleysi sínu eru þeir í raun að styðja ríkjandi kreddur. Ríkiskirkjan hér á landi er gott dæmi um það, hún boðar kristni í leik- og grunnskólum og talsmenn hennar reyna að réttlæta það með vísun til fjöldans sem skráður er í kirkjuna - jafnvel þó vitað sé að sá fjöldi er í engu samræmi við trúarskoðanir íslendinga.

Myndin er afskaplega fyndin á köflum, ég hló oft upphátt en satt að segja er ég ekkert rosalega sáttur við þær aðferðir sem notaðar eru í svona myndum. Viðmælendur eru stundum ekki meðvitaðir um hvernig mynd er verið að framleiða og klippingum er beitt til að láta þá líta illa út. Allir geta virkað aulalega þegar slíkri tækni er beitt. Staðreyndin er nú samt að það þarf yfirleitt engin trix til að láta suma trúmenn líta kjánalega út, nóg er að láta þá segja hreinskilnislega frá trú sinni. Eins og Maher bendir reyndar á í myndinni eru trúmenn þó gjarnir á að afneita kenningunum þegar þeir tala við einhvern utan trúarbragðanna - viðhorf Íslam til heiðingjanna er gott dæmi um það.

Ég mæli með því að fólk sjái þessa mynd, en vona að það geri sér um leið grein fyrir því að þetta er ekki endilega besta gagnrýni á trúarbrögð sem framleidd hefur verið. Að mínu mati er Root of all evil? töluvert betri mynd - þó hún sé ekki jafn fyndin. Það er oft ágætt að hlægja að trúarbrögðum. Þau eru hlægileg.

kvikmyndir